G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir óheimilt að setja upp skilti á veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar nema í samráði við Vegagerðina. Vegagerðin fjarlægði fyrr í dag skilti sem sett var upp af forsvarsmönnum hópsins „Stopp hingað og ekki lengra!“ sem barist hefur fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.
„Það má ekki setja upp skilti á þessum stað og staðsetningin á því var mjög slæm,“ segir G. Pétur en það var staðsett við hringtorg. „Það eru dæmi um að menn hafi sett upp svona skilti tímabundið en það er þá gert í samkomulagi við okkur og í samræmi við reglur þar sem skiltin skapa ekki hættu,“ segir hann.
Spurður hvort hópurinn fái skiltin aftur í hendurnar segist G. Pétur ekki vita það á þessum tímapunkti, forsvarsmenn hópsins eiga að minnsta kosti eftir að ræða við Vegagerðina áður en tekin verður ákvörðun um það.
Veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar nær yfirleitt á milli 15 til 30 metra frá miðlínu vegar í hvora átt og telur G. Pétur að á þessu svæði sé helgunarsvæðið 30 metrar frá miðlínu.