Hundarnir fjórir, sem bjargað var af hundraðkatta-heimilinu umtalaða, eru komnir á tímabundin fósturheimili. Það er Hundasamfélagið sem hefur annast hundana eftir að félagið Villikettir bjargaði þeim ásamt fleiri tugum katta úr húsnæðinu þar sem dýrin höfðust við við lakar aðstæður. Einn hundanna glímir við krabbamein og bíður þess að gangast undir aðgerð.
Að sögn Guðfinnu Kristinsdóttur hjá Hundasamfélaginu eru hundarnir allir að koma til og eru smátt og smátt að venjast eðlilegum heimilisaðstæðum. Nú vinnur Hundasamfélagið hörðum höndum að því að finna hundunum framtíðarheimili en til greina kemur að tvö fósturheimilanna muni veita þeim varanlegt heimili. Alls voru sjö hundar í húsinu en þrír þeirra eru ennþá í umsjá eiganda.
„Það náttúrlega hlýddi enginn þeirra skipunum og kunni enginn nafnið sitt eða neitt svoleiðis, en eru hægt og rólega að koma til,“ segir Guðfinna í samtali viðmbl.is. Hún segir hundana vera afskaplega blíða við fólk og flestir þeirra kunna að ganga í taum.
Tíkin Myrra er meðal hundanna fjögurra en hún hefur verið greind með krabbamein í spenum.
Tíkin var hræddust allra hundanna þegar Hundasamfélagið tók á móti henni og þáði hvorki vott né þurrt fyrstu tvo dagana. Í gær þorði hún fyrst að pissa úti en nú bíður hún þess að gangast undir aðgerð. „Hún er voðalega lífsglöð og er loksins að koma til,“ segir Guðfinna, en líklega fer Myrra ekki í aðgerð fyrr en í næstu viku.
„Það eru stór kýli aftan á öftustu spenunum, þannig að þetta er eitthvað sem hefur ekki verið skoðað í alveg langan tíma,“ segir Guðfinna. Grunur leikur á að Myrra sé einnig hvolpafull og á að ganga úr skugga um hvort svo sé áður en tíkin fer í aðgerðina.
Hundasamfélagið hefur hrint af stað söfnun til að fjármagna aðgerðina og annan tilfallinn dýralæknakostnað vegna hundanna. Hundarnir hafa þegar fengið ýmsa læknisaðstoð sem þeir þurftu á að halda en þá þarf að borga reikninginn. Guðfinna segir kostnaðinn geta numið frá 150 til 200 þúsund krónum en söfnunin hefur farið vel af stað. Þegar hefur safnast sem nemur kostnaði við aðgerð Myrru en hundarnir þurfa einnig að fara í tannskoðun.
Einstaklingar, dýralæknar, hundasnyrtar og aðrir velunnarar hafa lagt sitt af mörkum með einum eða öðrum hætti og kveðst Guðfinna bjartsýn á að fljótt náist að safna fyrir dýralæknakostnaðinum og að finna hundunum varanlegt heimili.
Enn er beðið eftir niðurstöðu Matvælastofnunar um hver örlög dýranna verða sem eftir eru í húsinu. Að sögn Villikatta er búist við svörum MAST á allra næstu dögum.