Ný hjólreiðakeppni í Reykjavík

Ný hjólreiðakeppni, Tour of Reykjavík, verður haldin í september.
Ný hjólreiðakeppni, Tour of Reykjavík, verður haldin í september. Ljósmynd/Pétur Þór Ragnarsson

Íþróttabandalag Reykjavíkur mun halda nýja hjólreiðakeppni sunnudaginn 11. september í Reykjavík. Ber keppnin nafnið Tour of Reykjavík og verður boðið upp á fjölbreyttar hjólaleiðir fyrir alla þá sem áhuga hafa á hjólreiðum.

Í tilkynningu frá aðstandendum keppninnar segir að markmið viðburarins sé tvíþætt; annars vegar að fá almenning til að taka virkari þátt í hjólreiðaviðburum og hins vegar að efla hjólreiðar á afreksstigi hér á landi.

Fjórar vegalengdir

Hægt er að velja um þrjá vegalengdir, auk barnabrautar, en rás- og endamark verður fyrir framan Laugardalshöllina. Lengsta vegalengdin sem í boði er er 110 kílómetrar, þar sem hjólað verður til Þingvalla um Nesjavallaleið og farið um Grafning og Mosfellsheiði til baka.

Aðrar leiðir eru innan Reykjavíkur, en hjólaður er hringur frá Laugardal, um Skeifuna, Bústaðarveg, Hringbraut, í gegnum miðborgina og til baka í Laugardal eftir Sæbraut. Hægt er að hjóla annað hvort einn eða þrjá hringi og eru vegalengdirnar 13 eða 40 kílómetrar. Leiðin verður lokuð fyrir bílaumferð svo hjólreiðafólkið hefur svæðið út af fyrir sig.

Barnabrautin verður síðan hringur í Laugardalnum, sem á að henta fjögurra til tólf ára börnum.

Styrkir Hjólakraft

Veitt verða verðlaun fyrir besta tíma í helstu aldursflokkum beggja kynja í 110 og 40 kílómetra vegalengdunum og fer verðlaunaafhendingin fram í anddyri Laugardalshallar. Ekki verða veittir þátttökupeningar, heldur mun andvirði þeirra heldur renna til styrktar Hjólakrafti, samtaka sem láta sér þá varða sem ekki hafa fundið sig í öðru frístundastarfi.

Hægt er að skrá sig í keppnina og finna frekari upplýsingar um hana, svo sem kort af hjólaleiðunum og reglur keppninnar, á vefsíðu Tour of Reykjavík sem finna má hér að neðan.

Hjólreiðafólk er hvatt til að skrá sig til leiks fyrir 11. ágúst, þar sem þátttökugjaldið mun hækka þá. Fyrstu 250 sem skrá sig í 110 kílómetra leiðina fá bol frá Cintamani að gjöf.

Heimasíða Tour of Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert