25 ketti vantar framtíðarheimili

Um 25 ketti vantar varanlegt heimili.
Um 25 ketti vantar varanlegt heimili. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Um það bil 25 kisur og kettlinga vantar ennþá framtíðarheimili af hundraðkatta-heimilinu. Villikettir hafa tekið við um það bil 80 köttum af heimilinu og fæðst hafa yfir 10 kettlingar síðan kettirnir komu í umsjá Villikatta.

Fyrst sóttu Villikettir 57 ketti sem flestir hafa nú fengið varanlegt heimili. Af þeim 19 köttum sem Villikettir tóku við fyrir viku hefur enginn fengið varanlegt heimili en þeir eru nú á fósturheimilum. Villikettir annast kettlingana og sem ennþá eru of litlir til að fara frá mæðrum sínum en þær munu einnig þurfa heimili þegar kettlingarnir komast á legg.

„Kettlingarnir hafa alltaf aðeins meiri séns, þeir eru meiri dúllur,“ segir María Krista Heiðarsdóttir hjá Villiköttum, en erfiðara reynist að finna heimili fyrir fullorðnu kisurnar.

Engir venjulegir heimiliskettir

„Þeir eru alltaf að taka skref fram á við og við erum náttúrlega bara ótrúlega þakklát fyrir þá sem hafa tekið sénsinn og boðið þeim heimili,“ segir María. Í ljósi þeirra aðstæðna sem kettirnir hafa búið við eru þeir svolítið öðruvísi en venjulegir heimiliskettir og eiga til að mynda erfiðara með að treysta fólki. María segir þó að kettirnir séu ekkert nema yndislegir þegar þeir komast yfir þann hjalla.

Í húsinu eru ennþá 30 til 40 kettir sem enn er óljóst hvað verður um. Villikettir bíða enn svara Matvælastofnunar um hvað gert verður í máli þeirra katta sem eftir eru.

Óli allur að koma til

Óli er einn kattanna sem vantar heimili en hann hefur tekið miklum framförum síðan hann kom til Villikatta. Óli var grindhoraður og hræddur þegar hann fyrst kom til Villikatta en er nú byrjaður að leyfa fólki að klappa sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert