Ekkert bendir til mútuþægni

Lögreglustöðin Hverfisgötu.
Lögreglustöðin Hverfisgötu. mbl.is/Þórður Arnar

Ekkert bendir til þess að lögreglufulltrúinn sem vikið var úr starfi innan fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um óeðlileg samskipti við brotamenn, hafi með einhverjum hætti gerst brotlegur í starfi. Þetta er mat héraðssaksóknara en mbl.is hefur undir höndum gögn sem héraðssaksóknari sendi lögmanni lögreglufulltrúans.

Í gögnunum er saga málsins rakin og kemur m.a. fram að orðrómur meðal brotamanna, og hugsanlega persónulegur ágreiningur, skýri að einhverju leiti þrálátan orðróm um að lögreglufulltrúinn hafi verið spilltur. Eins bendir héraðssaksóknari á að samskiptaörðugleikar innan fíkniefnadeildar, m.a. þar sem ekki hafi allir starfsmenn haft yfirsýn yfir og upplýsingar um alla starfsemina, eigi sinn þátt í því að ýta undir orðróminn.

Lögreglufulltrúinn var sakaður um að hafa þegið mútur gegn því …
Lögreglufulltrúinn var sakaður um að hafa þegið mútur gegn því að veita upplýsingar um mál eða málefni lögreglunnar. mbl.is/Golli

Héraðssaksóknari felldi niður mál á hendur lögreglufulltrúanum hinn 8. júlí sl. Hafði embættið þá verið með málið á sínu borði og rannsakað meint brot lögreglufulltrúans í starfi síðan 8. janúar. Upphaf málsins má rekja til þess að aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra leitaði til ríkissaksóknara í maí 2015 og upplýsti um að hann hafi fengið upplýsingar um hugsanleg brot lögreglufulltrúans.

Eftir að innanhúsrannsókn var gerð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fól ríkissaksóknari lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að kanna nánar tiltekin atriði til að hægt væri að meta hvort hefja ætti sakamálarannsókn á hendur lögreglufulltrúanum. Rannsókninni hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu lauk með því að 22 tilvik um meint brot í starfi voru send ríkissaksóknara í desember á síðasta ári.

Hafði samband og sagðist hafa upplýsingar um málið

Sama dag og gögnin voru send ríkissaksóknara hafði lögfræðingur samband við ríkissaksóknara og sagði skjólstæðing sinn búa yfir upplýsingum um meint brot lögreglumanna sem gegndu stöðum yfirmanna í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sagði lögfræðingurinn umbjóðanda sinn reiðubúinn að gefa upplýsingar um að lögreglufulltrúinn hefði brotið af sér í starfi með því að veita honum upplýsingar um málefni fíkniefnadeildar og að umbjóðandinn hefði greitt lögreglufulltrúanum fyrir slíkar upplýsingar.

Í ljósi upplýsinganna var ákveðið að hefja sakamálarannsókn á hendur lögreglufulltrúanum og var nýstofnuðu embætti héraðssaksóknara sent málið. Rannsókn héraðssaksóknara var viðamikil. Skoðaðir voru tölvugrunnar notaðir af fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og sameiginlegt drif fíkniefnadeildar.

Lögreglufulltrúanum var vikið úr störfum vegna rannsóknarinnar en hann starfaði …
Lögreglufulltrúanum var vikið úr störfum vegna rannsóknarinnar en hann starfaði hjá fíkniefnadeild lögreglunnar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Að vísu sagðist brotamaðurinn síðar aldrei hafa leitað til lögfræðingsins og beðið hann um að hafa samband við ríkissaksóknara fyrir sína hönd og skildi hann ekki fyrir hvað lögfræðingnum vakti, en lögfræðingurinn starfaði áður sem lögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarasvæðinu.

Lögreglufulltrúinn veitti heimild til að rannsaka tölvupóst hans hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og var pósturinn skoðaður með sérstöku leitarforriti þar sem leitað var að nánar tilgreindum nöfnum og orðum sem höfðu tengsl við málið. Eins veitti lögreglufulltrúinn samþykki fyrir því að bankaupplýsingar hans og eiginkonunnar yrðu skoðaðar. Hvorki við athugun á tölvupósti né bankareikningum kom eitthvað athugavert í ljós.

29 vitni gáfu skýrslu

Við rannsókn málsins voru teknar skýrslur af 29 vitnum og ítarlega farið yfir tilvikin 22.

„Niðurstaðan var sú að í einhverjum tilvikum var eingöngu um að ræða vangaveltur einstakra starfsmanna um óeðlileg vinnubrögð sem enga stoð virtust eiga í gögnum, í öðrum tilvikum lágu fyrir gögn sem sýndu að vinnubrögð kærða voru fullkomlega eðlileg þrátt fyrir framburð starfsmanna um annað og loks voru tilvik nefnd sem gögn sýndu að kærði hafði enga aðkomu haft af,“ segir í skjalinu frá héraðssaksóknara.

Ekkert kom fram við rannsóknina sem styður þær ásakanir að lögreglufulltrúinn hafi þegið fé frá brotamanni í skiptum fyrir upplýsingar um starfsemi lögreglu eða einhvers konar vernd. Hins vegar staðfesti lögreglufulltrúinn slíkar upplýsingar í eitt skipti, með samþykki yfirmanna, en það var gert í því skyni að reyna að upplýsa hvernig brotamaðurinn komst upphaflega yfir upplýsingarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert