Framkvæmdir við Exeter-húsið hafnar

Svæðið þar sem Exeter-húsið stóð. Framkvæmdir eru hafnar.
Svæðið þar sem Exeter-húsið stóð. Framkvæmdir eru hafnar. mbl.is/Júlíus

Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar hefur veitt samþykki fyrir því að niðurrif haldi áfram á svæðinu þar sem Exeter-húsið við Tryggvagötu stóð.

Reykjavíkurborg kærði verktakafyrirtækið Mannverk í vor skömmu eftir að í ljós kom að það hafði rifið húsið, sem var friðað.

Að sögn byggingarfulltrúans, Nikulásar Úlfars Mássonar, þurfti sérstaka heimild til að mega rífa restina af húsinu. Um er að ræða neðsta gólf hússins og sökkla.

Byggt í sama stíl og áður

„Þetta niðurrif er skilyrt við það að þeir hefji strax aftur endurbyggingu á húsinu í þeim stíl og í þeirri gerð sem það var byggt upphaflega og að það sé unnið í nánu samráði við Minjastofnun Íslands,“ segir Nikulás Úlfar.

Vinnuvélar frá Mannverki eru komnar á lóðina og gerir Nikulás ráð fyrir því að verkið muni ganga fljótt og vel fyrir sig. Reiknað er með því að niðurrifið og uppbygging hússins taki um tvö ár.

Exeter-húsið áður en það var rifið.
Exeter-húsið áður en það var rifið.

Endanleg niðurstaða ekki komin

Hann tekur fram að endanleg niðurstaða sé ekki komin í málið því kæru borgarinnar gegn Mannverki verður haldið til streitu. „Lögreglan er enn þá að rannsaka þetta sem sakamál en ég held að það sé besta mál að framkvæmdir séu að hefjast þarna aftur því við viljum ekki hafa miðborgina okkar svona útlítandi.“

Minjastofnun á eftir að kæra

Guðný Gerður Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Minjastofnun Íslands, segir að arkitektar stofnunarinnar muni taka þátt í uppbyggingu hússins með arkitektum frá stofunni Glámu-Kím.

Stofnunin hefur enn ekki kært Mannverk vegna niðurrifs Exeter-hússins en að sögn Guðnýjar er verið að undirbúa kæruna.

Eftir að niðurrifinu lýkur verður húsið endurbyggt í upprunalegri mynd.
Eftir að niðurrifinu lýkur verður húsið endurbyggt í upprunalegri mynd. mlb.is/Júlíus

Fylgt eftir af fullri hörku

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að borgin muni fylgja kæru sinni vel eftir og leggur áherslu á að endurreisn hússins verði eins og best verður á kosið. Minjastofnun hafi sett það sem ófrávíkjanlegt skilyrði að húsið verði byggt aftur upp sem bindingsverkshús, þar sem burðarbitar læsi sig hver ofan í annan. „Við teljum mjög mikilvægt að borgin fylgi þessu eftir af fullri hörku alla leið. Það er ekki til hagsbóta fyrir einn eða neinn að þetta svæði standi sem rúst mánuðum og jafnvel árum saman.“

Frétt mbl.is: „Menn komist ekki upp með svona“

Mannverk sendi í apríl frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla þar sem Minjastofnun, byggingaryfirvöld og almenningur var beðinn afsökunar á skorti á aðgát þegar það ákvað að rífa húsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert