Mál meindýraeyðis sem fenginn var til að safna saman köttum í Hafnarfirði að ósk ónefnds aðila er komið inn á borð lögmanns Hafnarfjarðarbæjar. Mun meindýraeyðirinn hafa safnað saman 16 köttum og afhent aðilanum ónefnda sem sagðist vera starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar. Samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar segir málið vera í skoðun hjá bænum.
Það var félagið Villikettir sem hafði fregnir af málinu og bar upp við Hafnarfjarðarbæ en athygli vekur að ónefndi aðilinn virðist við fyrstu skoðun ekki vera á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Þetta segir segir Árdís Árnadóttir, samskiptastjóri hjá bænum, í samtali við mbl.is. Þeir sem hafa með málið að gera hjá Hafnarfjarðarbæ kannast að sögn Árdísar ekki við að hafa verið í samskiptum við meindýraeyði.
Málið er hið undarlegasta en fylgja þarf sérstökum verkferlum í málum af þessum toga. Villikettir birtu færslu um málið á Facebook-síðu sinni í gær þar sem því er haldið fram að fullvíst sé að köttunum hafi verið lógað, þó óljóst sé hver sá um verkið. Þetta staðfesta Villikettir í samtali við mbl.is og segja málið grafalvarlegt, ekki síður í ljósi þess að grunur leikur á um að einhverjir kattanna hafi verið heimiliskettir.