Telja áhrif Pokémon jákvæð

Margir sem hreyfa sig lítið, fara nú í reglulegar gönguferðir …
Margir sem hreyfa sig lítið, fara nú í reglulegar gönguferðir til að veiða pokémona. AFP

Foreldrar einhverfra barna á Íslandi hafa þegar orðið varir við að Pokémon Go hvetji þau börn sem spila leikinn til að vera meira úti við, segir Laufey I. Gunnarsdóttir einhverfuráðgjafi. Erlendir fjölmiðlar hafa undanfarið greint frá því að farsímaleikurinn Pokémon Go hafi jákvæð áhrif á einhverfa.

Laufey sendi út fyrirspurn á íslenska Facebook hópa fyrir einhverfa og segir hún viðbrögðin benda til þess að  foreldra þeirra einhverfu barna sem spila Pokémon Go, telji áhrifin vera jákvæð. Hún hefir þó einnig heyrt af börnum sem sýna leiknum engan áhuga. 

„Síðan eru aðrir sem vilja ekki prófa leikinn af því að þeir eru  meðvitaðir um eigin þráhyggjur og óttast að festast í honum,“ segir Laufey og bætir við að slíkt eigi þó ekki bara við um einhverfa. Aðrir geti líka fest sig í leiknum.

Fólk yfirleitt til í að spjalla um pokémonana sína

„Þeir sem eru á einhverfurófi og spila leikinn eru hugsanlega að fara meira út en áður, þannig að þeir fá þá meiri hreyfingu,“ segir Laufey. Börn sem hafi áður setið föst við tölvuna, óháð öllum greiningum, fáist nú til að fara út.

Hún nefnir sem dæmi  móður einhverfs drengs, sem er líka einhverf sjálf. Hún hafi greint frá því að þau mæðgin fari nú tvisvar á dag í göngutúra og sonur hennar, sem hafi þá venju að heilsa fólki hvort sem hann þekki það eða ekki, spyrji nú þá sem hann mætir með farsíma á lofti hvort þeir séu að spila Pokémon. „Oftast er fólk tilbúið að spjalla við hann um pokémonana sína og stundum getur hann sagt fólki eitthvað sem það kann ekki.“ Strákurinn sé búinn að liggja yfir Pokémon á YouTube og sé orðin nokkuð fróður.

„Móðir hans telur þetta vera góða æfingu fyrir hann í félagsfærni, en nefnir þó að þau þurfi að passa sig á þráhyggjunni -  að fara ekki of oft út að leita.“

Skólastúlkur í Japan spila hér Pokémon Go. Foreldrar einhverfra íslenskra …
Skólastúlkur í Japan spila hér Pokémon Go. Foreldrar einhverfra íslenskra barna hafa orðið vör við að leikurinn opni á samskipti barna þeirra við jafnaldra sína. AFP

Geta spjallað saman um leikinn

Laufey segist hafa fengið fjölmörg sambærileg svör. Ein hafi sagt sögu af einhverfum dreng sem hún þekki sem áður hafi verið erfitt að fá til að fara út, en nú sé hann mikið úti við að leika sér með Pokémon. „Þá spilar frænka hans líka Pokémon og þau geta því spjallað um leikinn.“  

Sömuleiðis hafi önnur kona greint frá því að sonur hennar á unglingsaldri, sem er  greindur með Asperger, hafi  farið í fjallgöngu til að finna pokémon, þrátt fyrir að vera venjulega ekki æstur í að vera úti.

„Eitt af vandamálunum við einhverfa krakka og unglinga er að þeim hættir til kyrrsetu og að vera föst í tölvuleikjum,“ segir Laufey. Vandan sé vissulega að finna hjá á öðrum börnum líka, en sérstaklega hjá einhverfum börnum þar sem að þau hafa oft ekki áhuga á íþróttum eða hópleikjum. „Þannig að það verður spennandi þegar maður fer að vinna í haust, að heyra hvernig foreldrar og krakkarnir sjálfir upplifa þetta,“ segir Laufey sem m.a. sér um að greina einhverfu.

Erlendir sérfræðingar hafa bent á að áhugasvið einhverfra barna séu oft nokkuð sérhæfð og ekki alltaf líkleg til að vekja áhuga jafnaldra þeirra. Pokémon Go veiti einhverfum börnum hins vegar möguleika að spjalla við aðra krakka um áhugamál sem þau deilir.

Laufey samsinnir þessu og segir gátt virðast opnast þarna á milli. Auk dæmanna hér að ofan nefni móðir 10 ára einhverfs drengs að hann fái nú færi á að tengjast öðrum krökkum á nýjan hátt, þar sem hann þekki umtalsefnið. „Hann á þó líka erfitt með að skilja það þegar netþjónninn virkar ekki, sem kemur inn á þráhyggjuna og það er svo sem ágætis kennslustund í mótlæti.“

„Þannig að þetta virðist því hafa góð áhrif á félagsfærni og hreyfingu hjá þeim sem spila leikinn,“ segir Laufey.

Frá Pikachu-hátíð sem haldin er í Yokohama-hverfinu í Tokýo.
Frá Pikachu-hátíð sem haldin er í Yokohama-hverfinu í Tokýo. AFP

Brúar kynslóðabilið

„Fólk hefur þó líka nefnt að það vilji ekki leyfa ungum börnum að spila leikin ein, enda hefur verið bent á að athygli leikmanna á umhverfi sínu er takmörkuð, en það á nú kannski ekki bara að við um börn með greiningu.“ 

Aðrir hafa nefnt að leikurinn sé góð leið til að sameina kynslóðirnar, óháð öllum greininum, og nefnir Laufey í því sambandi að uppkomnir synir sínir sem spila leikinn, fái nú beiðnir frá ungum frændum um að fara með þá út að leita.

„Ein kona sagði frábært að leikurinn sameinaði fullorðna og börn. Hún sagði að synir sínir, 10 og 18 ára, og pabbi þeirra spiluðu allir leikin, sem síðan spjalla um og sýna pokémonana.“

Pokémon Go virðist hafa fangað hug bæði barna og fullorðinna.
Pokémon Go virðist hafa fangað hug bæði barna og fullorðinna. AFP

Kvíðir því að fara út, en spilar samt Pokémon

Laufey nefnir einnig að hún fékk póst frá ungri konu sem spilar Pokémon daglega, þrátt fyrir að vera með mikinn kvíða og fari þess vegna helst helst ekki út fyrir hússins dyr.

„Ég er búin að vera í þessu síðan þetta kom út,“ sagði í póstinum. „Er með ofboðslegan kvíða og fer helst ekki ein út úr húsi, en þessa dagana hef ég farið í alla vegna klukkutíma gönguferð á hverjum degi. Ég þori samt ekki að tala við fólk, en ég sé að þetta er að hjálpa mér að fara út sem er geðveikt.“

„Leikurinn virðist þannig hafa einhverja kosti í för með sér,“ segir Laufey. „Og hann virðist vissulega fá fólk til að hreyfa sig, sem annars hefði kannski ekki gert það. Gallinn er þó kannski sá að sumir kunna að þurfa að fá sér nýjan síma þar sem sá gamli ræður ekki við appið,“ segir Laufey að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert