Fleiri árásir gætu fylgt

Kerti og blóm við lestarstöð í München, til minningar um …
Kerti og blóm við lestarstöð í München, til minningar um fórnarlömb skotárásarinnar á föstudag. AFP

Fleiri einstaklingsárásir gætu fylgt í kjölfar árásanna í Þýskalandi í vikunni, auk þess sem hryðjuverk í Evrópu ýta undir hættuna á slíkum árásum í álfunni. Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.

Að sögn helga virðast svokölluð eftirhermuáhrif hafa legið að baki skotárásinni í München á föstudag, voðaverk Anders Behring Breivik í Ósló og Útey 2011 virðast hafa veitt árásarmanninum innblástur, en árásin var gerð fimm árum eftir atburðina í Noregi.

Helgi Gunnlaugsson.
Helgi Gunnlaugsson.

„Þarna er einstaklingur sem er kannski tæpur á geði og festist við þennan atburð og þau áhrif sem hann hafði, ekki bara í Noregi, heldur um allan heim og verður þá einhvers konar fyrirmynd. “

Helgi segir algengt að menn taki sér dæmi um árásir sem fyrirmynd, oft úr náinni fortíð, og virðist skotárásin í München skýrt dæmi um slíkt, þótt hún hafi verið gerð nokkrum árum eftir fyrirmyndina. „Menn óttast oft þegar það verða svona voðaatburðir að það verði slík áhrif, frekar stuttu eftir en löngu. Það voru akkúrat fimm ár þennan dag og var þetta stillt þannig af.“

Hryðjuverk hafa áhrif

Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa bent til þess að skotárásir þar í landi geti verið smitandi; eftir eina skotárás er líklegra að önnur fylgi fljótlega í kjölfarið. Helgi segir mögulegt að sú verði raunin í Evrópu nú. „Það gæti alveg gerst, það er alls ekki hægt að útiloka það. Eins með þessi hryðjuverkamál, eins og í Nice, þá óttast menn að aðrir fylgi á eftir, óttast þessi smitáhrif.“

Nú hafi verið fimm ár frá árás Breivik og enn eigum við eftir að upplifa sex ár, tíu ár o.s.frv. „Við vitum það að Breivik á sína fylgismenn sem líta upp til hans. Yfirvöld vita að það leynast víða menn sem líta upp til einstaklinga eins og hans.“

Hryðjuverkaárásir í Evrópu að undanförnu geta líka haft áhrif og komið af stað einstaklingsárásum, að sögn Helga. Í upphafi hafi menn talið skotárásina á föstudag hryðjuverk, líkt og í Nice og París, en slík hryðjuverk hafi líklega óbein áhrif. Þau mynda rammann, þetta er í umhverfinu.

„Í Þýskalandi virðist þetta ekki beintengt hryðjuverkaógninni, en þau virðast óbein áhrif en Breivik beinni. Þessi hryðjuverk geta verið hvetjandi fyrir svona eftirhermur.“

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. AFP

Þrá að komast á ákveðinn stall

Annað sem valdi áhyggjum er að þeir sem fremja slík voðaverk geta orðið hetjur í augum annarra. „Þessir menn eru nafngreindir, það kemur mynd af þeim, það kemur saga þeirra. Þeir fá þarna ákveðna frægð. Fyrir ýmsa einstaklinga er það í sjálfu sér eftirsóknarvert. Þeir komast þarna á ákveðinn stall.“

Því sé kannski rangt að stilla árásarmönnum upp sem einstaklingum þar sem þeir þrái fjölmiðlaumfjöllun. „Flest fólk fyrirlítur þá en það eru ákveðnir hópar sem þeir fá á sig hetjublæ hjá. Það getur hvatt einstaklinga til að endurtaka með einhverjum hætti.“

Árásum gæti fjölgað vegna komu flóttamanna

Helgi segir þjóðfélagsbreytingar í Evrópu, tilkomnar vegna flóttamannastraumsins, líklegar til að hafa áhrif á þróun árása í álfunni. Nefnir hann þar bæði hryðjuverkaógnina og andúð á útlendingum, sem geti legið að baki slíkum árásum. „Maður óttast það eftir því sem flóttamannavandinn vex. Maður sér þúsundir koma frá Mið-Austurlöndum og þetta er undirliggjandi alda í okkar samtíma [...] Þeir streyma inn í næstu heimsálfu sem er auðvitað Evrópa og það á vafalítið eftir að hitna í kolunum á næstunni.“

Árásir þeirra sem eru andvígir fjölmenningu gætu fylgt í kjölfarið, en aukið fylgi við stjórnmálahreyfingar sem vilja hertari innflytjendalöggjöf í álfunni sýnir að slíkar hugmyndir verða æ vinsælli. „Maður óttast það að menn fari að leita meira inn á við en út á við. Það er alveg í spilunum og maður sér það alveg vera að gerast. Hugmyndir um það að loka að sér og þjóðernishyggja – hugmyndum af því tagi hefur vaxið fiskur um hrygg á sama tíma og innflytjendaaldan er í rauninni bara að þyngjast.“

Breivik geti því reynst mönnum innblástur til að fremja voðaverk, beint gegn útlendingum eða fjölmenningarsamfélögum. Menn bendi á hugmyndir hans um „hreina“ Evrópu, á sama tíma og þúsundir flóttamanna frá Mið-Austurlöndum streyma til álfunnar. „Menn sjá þetta oft sem ógn við sig – við vinnu og velferðarsamfélag. Þetta eru válegir tímar sem við erum að lifa og við sjáum engan endi á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert