Langvinn barátta gegn Deildu.net

Deildu.net
Deildu.net mbl.is

Tímamót virðast hafa átt sér stað í baráttu íslenskra höfundarréttarsamtaka gegn skráaskiptasíðunni Deildu.net en eins og mbl.is hefur fjallað um hafa samtökin lagt fram kæru á hendur einstaklingi sem þau telja að standi á bak við síðuna. Tæknifyrirtæki var fengið til þess að rannsaka málið og skilaði það upplýsingum sem komið var áfram til lögreglunnar.

Höfundarréttarsamtökin hafa reynt að stöðva starfsemi Deildu.net eða hindra aðgengi að síðunni um árabil en þetta er ekki í fyrsta sinn sem leitað hefur verið liðsinnis lögreglu vegna skráaskiptasíðunnar sem samtökin segja að notuð sé til að deila höfundarréttarvörðu íslensku sjónvarpsefni og kvikmyndum. Hins vegar hefur lögreglan verið sökuð um að að hafast lítið að í þeim efnum. Haustið 2013 var því brugðið á það ráð að fara fram á lögbann á starfsemi Deildu.net auk erlendu skráaskiptasíðunnar Pirate Bay. Var þess krafist að fjarskiptafyrirtæki lokuðu á síðuna.

Vildu ekki ritskoða viðskiptavina sína

Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði hins vegar lögbannskröfunni. Lögbannskrafan fól í sér að lokað yrði á aðgengi viðskiptavina fyrirtækjanna að þeim netþjónum sem hýstu skráaskiptasíðurnar. Taldi sýslumaður nærtækara að samtökin höfðuðu skaðabótamál á hendur vefsíðunum. Höfundarréttarsamtökin fóru í kjölfarið með málið fyrir dómstóla en Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málinu frá og staðfesti Hæstiréttur í kjölfarið meirihluta frávísunar héraðsdóms í apríl 2014. Málinu var að öðru leyti vísað aftur til meðferðar í héraði.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst síðan að þeirri niðurstöðu í október 2014 að sýslumanninum í Reykjavík bæri að setja lögbann á skráaskiptasíðurnar á grundvelli ákvæða höfundarréttarlaga. Ekki hefði verið sýnt fram á að um mjög íþyngjandi aðgerð væri að ræða. Fjarskiptafyrirtækin mótmæltu kröfunni um lögbann frá byrjun, einkum á þeirri forsendu að hlutverk þeirra væri ekki að ritskoða netnotkun viðskiptavina sinna, en í kjölfar dómsins lokuðu þau á vefsíðurnar.

Fjarskiptafyrirtækið Hringdu benti á að lögbannið breytti litlu enda fjölda annarra skráaskiptasíðna að finna á netinu og því auðvelt að komast í kringum bannið. Eðlilegast hefði verið fyrir höfundarréttarsamtökin að beina spjótum sínum að rekstraraðilum umræddra vefsíðna í stað fjarskiptafyrirtækja. Þá var bent á að skráaskiptasíðurnar þyrftu ekki annað en að skipta um lén til þess að hægt væri að tengjast þeim. Höfundarréttarsamtökin lögðu hins vegar áherslu á að dómur héraðsdóms næði til vefsvæðanna óháð því hvaða lén þau notuðu.

Lögbannið skilað minni íslenskri umferð

Samkomulag náðist síðan í september á síðasta ári á milli höfundarréttarsamtakanna og fyrirtækjanna um framkvæmd lögbannsins. Haft var eftir Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), að lögbannið hefði skilað árangri enda hefði umferð frá Íslandi um skráaskiptasíðurnar tvær minnkað verulega í kjölfarið. Aðgerðirnar hefðu hins vegar verið dýrar og tekið of langan tíma.

Höfundarréttarsamtökin brugðu skömmu síðar á það ráð að kæra lögregluna fyrir aðgerðaleysi vegna kæru sem lögð var fram vegna starfsemi Deildu.net árið 2012. Ný kæra á hendur skráaskiptasíðunni hefur nú verið lögð fram líkt og fram kemur í upphafi fréttarinnar en samtökin telja sig nú hafa undir höndum upplýsingar sem kunni að leiða til ákæru á hendur einstaklingi sem þau telja að sé höfuðpaurinn á bak við starfsemi vefsíðunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert