Staðgengill sendiherra Þýskalands á Íslandi, Diane Röhrig, vonast til að atburðir eins og þeir sem hafa gerst í Þýskalandi að undanförnu, þar sem þrjár árásir hafa verið gerðar á skömmum tíma, muni ekki endurtaka sig.
„Það eru eðlileg viðbrögð að verða fyrir áfalli út af því sem hefur gerst,“ segir Röhrig. „Við vonum að sjálfsögðu að þetta gerist ekki aftur.“
27 ára gamall hælisleitandi frá Sýrlandi sprengdi sig upp fyrir utan vínbar í bænum Ansbach í gær. Á föstudaginn voru níu skotnir til bana af ungum Þjóðverja af írönskum ættum í München og fyrir viku síðan særði 17 ára afganskur hælisleitandi fimm lestarfarþega með exi í nágrenni Stuttgart.
Frétt mbl.is: Tengi hælisleitendur ekki við árásirnar
Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, sagðist í gær vera reiðubúinn til að gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að takmarka aðgengi að banvænum skotvopnum. Röhrig segir að engin spurning sé um að slíkt þurfi að gera og telur að það myndi hafa sitt að segja til að fyrirbyggja árásir sem þessar.
Frétt mbl.is: Vilja herða byssulöggjöfina
„Í hinum vestræna heimi er aldrei hægt að koma 100% í veg fyrir árásir sem þessar en það þarf að alltaf að endurskoða reglulega hvernig hægt er að bregðast við þeim og reyna að koma í veg fyrir að þær endurtaki sig,“ segir Rhörigh, sem fylgdist vel með fregnum af árásunum á netinu, þar á meðal á samfélagsmiðlum.
Þýska sendiráðið vottaði í morgun aðstandendum fórnarlamba árásanna samúð sína á Facebook-síðu sinni. Einnig var þeim þakkað sem færðu því hluttekningarorð og samkennd.