Vatnið ekki óþrjótandi auðlind

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég get ekki séð að það sé nokkur möguleiki fyrir okkur að gera svona samning,“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, um tillögur hollenska fjárfestisins Henris Middeldorps, sem falaðist eftir því að Hafnarfjarðarbær seldi fyrirtæki hans 500 sekúndulítra af neysluvatni.

Greint var frá málinu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld en um er að ræða sama aðila og hyggst reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ.

Haraldur fól embættismönnum að eiga viðræður við Middeldorp eftir fund með fjárfestinum í vor. „Það sem gerist þá næst er að hann óskar eftir fundi með mér og kemur þá með tilbúinn samning sem hljóðar upp á þetta sem kemur fram í fréttinni,“ segir Haraldur og vísar þar í frétt Stöðvar 2.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bæjaryfirvöld tóku umleitunum Middeldorps fálega en í áðurnefndri frétt kom fram að magnið sem fjárfestirinn óskaði eftir væri rúmlega fjórfalt það magn sem Hafnarfjarðarbær notar.

Hollendingurinn hugðist flytja vatnið úr landi.

Í samtali við mbl.is benti Haraldur á að vatn væri ekki óþrjótandi auðlind og sagðist hafa óskað eftir umræðum um málið á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu; ekki mál Hollendingsins heldur almennt.

„Mér finnst þetta varða öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ef það á að fara að flytja út svona mikið magn af vatni af svæðinu,“ segir Haraldur, en fleiri aðilar hafi bankað á dyrnar en umræddur fjárfestir.

Henri Middeldorp (t.h.) ásamt hjartalækninum Pedro Brugada.
Henri Middeldorp (t.h.) ásamt hjartalækninum Pedro Brugada.

Um lyktir þessa tiltekna máls segir Haraldur:

„Það vita allir að ef sveitarfélagið gerir samning þarf það að standa við hann. Þannig að [Middeldorp] veit alveg hver við erum og veit alveg hvaða skyldur við höfum og hver okkar geta er til að standa við samninga. En við vitum ekki hver hann er og það lágu engar upplýsingar frammi um það hvaða áform þetta væru og svo framvegis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert