Dröfnin óskemmd á strandstað

Engar skemmdir virðast hafa orðið á rannsóknarskipinu Dröfn, sem strandaði í Þorskafirði í Barðastrandasýslu nú síðdegis. Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem var kölluð út um þrjú­leytið, hefur myndað skipið og kannað hvort einhverja mengun sé að sjá á strandstað, en svo virðist ekki vera.

Að sögn Landhelgisgæslunnar virðist Dröfn hafa tekið þannig niðri að litlar sem engar skemmdir hafi orðið á skipsskrokknum. Þyrla Gæslunnar er því á leið til baka, en björgunarbátur frá björgunarsveitinni Heimamönnum á Reykhólum er komin á strandstað og verður skipverjum til aðstoðar þar til skipið kemst á flot að nýju.

Vonir standa til að það fljóti það vel undir Dröfn á flóðinu í nótt að skipið komist á flot að nýju án nokkurrar aðstoðar.

Rannsóknarskipið Dröfn strandað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert