Almenn ánægja er með innsetningarræðu Guðna Th. Jóhannessonar fyrr í dag meðal leiðtoga þingflokkanna sem mbl.is náði tali af.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ræðuna hafa verið mjög góða og haft góðan tón. „Hann byrjar á að tala um helstu stoðir velferðarsamfélagsins; heilbrigðismál og menntamál. Heilbrigðisþjónusta og skólaganga eigi að vera aðgengileg hverjum sem er, óháð efnahag. Mér fannst hann slá þar góðan tón. Eins talaði hann um jafnrétti og samhjálpina og leggur líka áherslu á lærdóm, að við lærum af sögunni eins og hún er, þetta góða og þetta slæma og við lærum af því.“
Nefnir hún að Guðni vilji sjálfur læra, bæði af forsetum fyrri tíma og fólkinu í landinu. „Mér finnst hann gefa fólki þá von að hann muni ná sátt um embættið meðal landsmanna.“
Mbl.is leitaði til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, en hvorki náðist í formann né varaformann flokksins. Segir Ragnheiður Guðna hafa gert þetta mjög vel, hann hafi verið auðmjúkur og hógvær, en engu að síður fastur fyrir.
„Mér fannst hann taka skemmtilega saman gamla og nýja tíma, landið okkar í nútíð og framtíð, gömul skáld í fortíð og nútíð, höfða til þess að við erum ekki öll eins sem byggjum þetta land og samheldni.“
„Þetta var ágætisræða og kannski merkilegur þessi skýri boðskapur um opið samfélag, fjölbreytni og fjölmenningarsamfélag, sem mér finnst mikilvægt á þessum tímum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. „Ég er mjög sammála þessu og fannst mjög gott að forsetinn leggi áherslu á sameiningu fremur en sundrun.“
„Mér fannst hann slá sinn tón í ræðunni, sem mér fannst ríma alveg við það sem hann talaði fyrir í kosningabaráttu sinni. Ég held að það sé almenn ánægja með þetta.“
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir sér finnast tvennt hafa staðið upp úr í ræðu Guðna, „[Það] voru tilvísanirnar í ljóð og texta sem hann hafði og svo fannst mér skína svo vel í gegn auðmýkt og fannst hann koma fram sem mjög vel upplýst, venjuleg manneskja.“ Hún hafi ekkert verið að greina pólitík í ræðunni, en hafi fundist Guðni samkvæmur sjálfum sér „og ég skynja að honum er mikið í mun um að vera forseti allra.“
Spurð um ummæli Guðna um stjórnarskrána, segist hún ekki vera sammála því sem hann leggur til, þar sem hann talar um áfangasigra, en hafi fundist mikilvægt í ræðunni, þegar Guðni sagði „að eitthvað þarf að gera ef þingið treystir sér ekki til að klára þessi mál og það var nú þess vegna sem það var búið til stjórnlagaþing.“
Þá var hún sérstaklega ánægð með tvennt: „Í fyrsta lagi var ekki skylda að vera í kjólfötum eða síðkjólum. Í öðru lagi var ég gríðarlega sátt með lagavalið, bæði í Dómkirkjunni og við setningu athafnarinnar. Það vildi svo til að lagið sem var flutt við ljóð Laufeyjar Jakobsdóttur var eitt af mínum uppáhaldslögum eftir hana mömmu mína. Þetta var mjög sérstakt.“
„Mér fannst þetta mjög góð ræða“, segir Brynhildur Pétursdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar og nefnir frjálslyndi og víðsýni, spurð hvað hafi staðið upp úr. „Hann talaði um fjölbreytileikann og mér fannst hann kveða við góðan tón.“
„Hann sagði það kannski ekki beinum orðum en hann ræddi að við værum ekki hrædd við framtíðina og værum opin fyrir alþjóðlegum áhrifum. Mér fannst hún mjög góð, alveg virkilega. Það er ekki alltaf sem maður hlustar á svona ræður frá upphafi til enda.“
Ekki náðist í formann, varaformann né þingflokksformann Framsóknarflokksins við gerð fréttarinnar.