Það var hátíðleg stund þegar Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti sem sjötti forseti lýðveldisins. Mikill mannfjöldi var samankominn á Austurvelli til að fylgjast með embættistökunni í blíðskaparveðri og virtist fólk almennt vera ánægt með nýjan forseta.
Boðsgestir sem voru við embættistökuna voru í sínu fínasta pússi, þó nýr forseti hafi óskað eftir að slaka á siðareglum í þessum efnum m.a. með tilliti til klæðnaðar. Eliza Reid ný forsetafrú tók sig þó vel út í skautbúningi sem tilheyrði tveimur forverum hennar, en treyjan er frá frú Dóru Þórhallsdóttur, eiginkonu Ásgeirs Ásgeirssonar og pilsið frá frú Halldóru Eldjárn, eiginkonu Kristjáns Eldjárns.