Guðni Th. Jóhannesson gerði náttúruvernd og heilbrigðiskerfið að umtalsefni í innsetningarræðu sinni. Sagði hann góðan forseta eiga að vera óháðan flokkum og fylkingum að sínu mati. Hann myndi þó vekja máls á því sem honum byggi í brjósti og benda á það sem betur mætti fara.
Í ræðu sinni kom Guðni inn á það að það sem sameini þjóðir verði að vega þyngra en það sem sundrar. „Og hér hefur þjóðhöfðinginn hlutverki að gegna. Forseta ber að stuðla að einingu frekar, bera virðingu fyrir skoðunum annarra, varast að setja sig á háan hest. Ekki er þar með sagt að ég megi ekkert mæla á forsetastóli nema það sem full samstaða er um, enda gæti ég þá í raun fátt sagt. Ólík sjónarmið verða að heyrast. Málefnalegur ágreiningur er til vitnis um þroskað og siðað samfélag.
Ég vona einmitt að við stöndumst það próf þegar við kjósum nýtt þing í haust. Í kosningum er tekist á um ólíkar stefnur og markmið en að þeim loknum verða þingmenn að vinna saman, finna lausnir, sýna sanngirni og beita þeim aðferðum sem auka virðingu þeirra sjálfra og hinnar aldagömlu stofnunar, Alþingis,“ sagði Guðni.
Sér væri auðmýkt í huga og hann ætti margt ólært, en hann vænti góðs af samstarfi við forvera sína í starfi, embættismenn og alþingismenn.
„Fólk á Íslandi á ekki að þurfa að líða skort,“ sagði Guðni og kvað góða heilbrigðisþjónustu ekki eiga að vera háða efnahag eða búsetu.
„Enn er verk að vinna í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og mér stendur nærri að nefna menntakerfið, grundvallarþátt í lífi einstaklinga, fjölskyldna og þjóðar. Innan þess eiga allir að geta fundið sér farveg og nám við hæfi, án þess að fjárhagur hamli för. Þá þurfum við að hlúa að æsku landsins og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi í okkar samfélagi.“
Þá gerði Guðni stjórnarskrána að umtalsefni og minnti á gildi áfangasigra í þeim efnum. „Geti þingið ekki svarað ákalli margra landsmanna og yfirlýstum vilja stjórnmálaflokka um endurbætur eða endurskoðun er úr vöndu að ráða. Í þessum efnum minni ég á gildi áfangasigra og málamiðlana. Hvarvetna blasa við áskoranir.
Náttúra Íslands er viðkvæm, við viljum bæði vernda hana og nýta á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Þetta getur reynst vandasamt en skilum landinu til næstu kynslóða þannig að þær fái notið gæða þess og gagna eins vel og við. Það er sá strengur sem skiptir mestu máli. Hugum líka að loftslagsmálum, það munu afkomendur okkar örugglega kunna að meta,“ sagði Guðni og minntist á frumkvæði Vigdísar Finnbogadóttur á sviði landgræðslu og umhverfisverndar og atbeina Ólafs Ragnars Grímssonar í málefnum norðurslóða og endurnýjanlegrar orku.
Forseta beri að stuðla að einingu og bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Ólík sjónarmið verði að fá að heyrast og málefnalegur ágreiningur sé til vitnis um þroskað og siðað samfélag. „Ég vona einmitt að við stöndumst það próf þegar við kjósum nýtt þing í haust. Í kosningum er tekist á um ólíkar stefnur og markmið en að þeim loknum verða þingmenn að vinna saman, finna lausnir, sýna sanngirni og beita þeim aðferðum sem auka virðingu þeirra sjálfra og hinnar aldagömlu stofnunar, Alþingis.“
Íslendingar þurfi ekki að óttast um hag sinn á nýrri öld. Ógnir geti vissulega leynst víða og gott sé að vera á varðbergi, en trúna á hið góða verði að varðveita.