Bunki af fyrirspurnum vegna vaxtabóta

Margir eiga erfitt með að átta sig á samsetningunni á …
Margir eiga erfitt með að átta sig á samsetningunni á sínum vaxtabótum. mbl.is/Golli

Töluvert hefur verið um að fólk hafi samband við ríkisskattstjóra vegna óánægju með greiðslu vaxtabóta.

Aðspurður segir Steinþór Haraldsson, starfandi ríkisskattstjóri, kvartanirnar þó ekki vera fleiri en undanfarin ár. Vaxtabætur voru greiddar út 1. júlí síðastliðinn.

Átta sig ekki á samsetningunni

„Vaxtabótakerfið er hreyfanlegt kerfi. Menn eru kannski ekki að átta sig á samsetningunni á sínum bótum. Það er töluvert um að menn vilji fá útskýringar á því hvað hindri að þeir fái vaxtabætur,“ segir Steinþór og nefnir að þar hafi fjölskyldusamsetning áhrif, ásamt tekjum og það hvernig skuldir gagnvart eignum raðist saman. „Allar þessar breytur kalla á kvikt kerfi en við höfum fengið bunka af fyrirspurnum.“  

Hann bætir við að það sé í raun ekkert gleðiefni að vera með háar vaxtabætur. „Það væri ánægjulegast að vera með engar því þá ættirðu samkvæmt öllu kerfi að vera kominn á lygnan sjó með þín fjármál.  En við erum með þessa niðurgreiðslu á vöxtum sem er ríkisstyrkur til þessara tegunda fjárfestinga heimilanna,“ segir Steinþór.

Kærufrestur vegna álagningar rennur út 31. ágúst.
Kærufrestur vegna álagningar rennur út 31. ágúst. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lækkandi vaxtabætur

Vaxtabætur hafa farið lækkandi undanfarin ár. Þannig námu almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2015, 5,2 milljörðum króna, sem er 25,7% lækkun á milli ára.

Almennar vaxtabætur fá 29.170  fjölskyldur og fækkar þeim um 21,3% á milli ára, að því er kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.

Vakna á síðustu metrunum

Kærufrestur vegna álagningar hefur verið lengdur í 60 daga og mun hann renna út 31. ágúst. Að sögn Steinþórs er venjan að menn vakni á síðustu metrunum, rétt áður en fresturinn rennur út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert