Hinsegin dagar í Reykjavík hófust formlega á hádegi í dag þegar stjórn hátíðarinnar og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, máluðu fyrstu gleðirendurnar á tröppur Menntaskólans í Reykjavík.
„Í mínum huga hefur þetta þá þýðingu að við erum að undirstrika að Reykjavík er mannréttindaborg og Reykjavík er borg fyrir alla, þar sem allir litir geta notið sín og allskonar fólk; svona og hinsegin. Ég er mjög stoltur af því að vera borgarstjóri í svoleiðis borg því þannig held ég að við viljum hafa Reykjavík,“ sagði Dagur B. Eggertsson í samtali við mbl.is.
Eins og kunnugt er var Skólavörðustígurinn málaður í regnbogalitunum í fyrra en í ár var ákveðið að finna nýjan stað í tengslum við þema hátíðarinnar í ár sem er: „sagan okkar – saga hinsegin fólks“.
Staðsetning regnbogans er því engin tilviljun enda húsakynni Menntaskólans í Reykjavík aldagömul og saga þeirra löng og litrík. Það má því segja að um sögulega stund verði að ræða þegar Gleðiganga Hinsegin daga gengur framhjá regnbogalituðum tröppum eins elsta húss miðborgarinnar.
Hinsegin dagar eru nú haldnir í átjánda sinn og hafa vaxið og dafnað með hverju ári. Í ár standa Hinsegin dagar frá 2. til 7. ágúst og á dagskránni eru um 30 viðburðir af ýmsum toga, þar má nefna myndlistarsýningu, tónleika, dansleiki, drag- og spunasýningar og margt fleira.
Líkt og fyrri ár nær hátíðin hápunkti sínum á laugardegi með gleðigöngu og útihátíð á Arnarhóli. Undanfarin ár hafa um 70.000-100.000 gestir tekið þátt í dagskrá Hinsegin daga í tengslum við gleðigönguna og búast skipuleggjendur við miklum mannfjölda í ár enda veðurspáin góð.