Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hvetur íslensk stjórnvöld til þess að láta ekki við það sitja að mótmæla mannréttindabrotum tyrkneskra stjórnvalda síðustu vikurnar, í kjölfar valdaránstilraunarinnar misheppnuðu, heldur taki einnig upp hanskann fyrir minnihlutahópa í landinu, svo sem Kúrda, og mótmæli ofsóknum gegn þeim.
Boðað var til fundar í utanríkismálanefnd Alþingis í morgun að frumkvæði Steinunnar Þóru Árnadóttur, fulltrúa Vinstri grænna í nefndinni, en staða mála í Tyrklandi var til umræðu á fundinum. Sat Ögmundur fundinn í fjarveru Steinunnar Þóru.
Hann segir í samtali við mbl.is að óskað hafi verið eftir því að boðað yrði til fundarins í kjölfar atburðanna 15. júlí síðastliðinn, þegar valdaránstilraunin var reynd í landinu, eins og kunnugt er.
Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt handtökum og pólitískum hreinsunum Recep Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, í kjölfar þess að tilraunin var brotin á bak aftur. Ögmundur vakti hins vegar athygli á því á fundinum að mannréttindabrot hefðu verið framin í landinu yfir lengri tíma. Síðasta hrina hafi hafist í ágúst fyrir réttu ári og hún hafi einkum beinst gegn Kúrdum.
„Það er mat manna að vel á fjórða hundrað þúsund manns séu á vergangi eftir ofsóknir í suðausturhéruðum Tyrklands,“ segir Ögmundur.
Þess sé einnig að minnast að í maímánuði hafi þingmenn á tyrkneska þinginu verið sviptir þinghelgi og mál höfðað á hendur 150 þeirra, flestum úr röðum Kúrda.
Þá er þess að geta að yfir eitt hundrað lýðræðislega kjörnum borgar- og bæjarstjórum í byggðum Kúrda hafa verið hraktir úr embætti, sumir fangelsaðir.
Ögmundur vakti athygli á þessu á fundinum og hvatti til þess að íslensk stjórnvöld tækju upp þessi mál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og annars staðar þar sem við hefðum snertiflöt við tyrknesk stjórnvöld.
„Ég hvatti til þess á fundinum að Íslendingar og íslensk stjórnvöld létu ekki sitja við það eitt að mótmæla mannréttindabrotum nú síðustu vikurnar, heldur horfðu til þess sem hefur verið að gerast í landinu í lengri tíma og tækju upp hanskann, þá ekki síst fyrir Kúrda,“ nefnir hann.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra kom til fundarins til þess að gera grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda til atburðarásárinnar í Tyrklandi. Hún tók undir áhyggjur af stöðu mála í landinu og sagði að framvegis yrði lögð ríkari áhersla á mannréttindabrot sem farmin væru gegn Kúrdum og öðrum minnihlutahópum.
Ögmundur sagði að ástæða væri til þess að fagna þessari afstöðu og þá einnig hve góður samhljómur hefði verið innan nefndarinnar.
„Það er skemmst frá því að segja að utanríkisráðherrann var mjög jákvæður hvað þetta varðar og var mikill samhljómur í utanríkismálanefnd varðandi þessi mál. Ég tel að fundurinn hafi verið mjög gagnlegur og upplýsandi í alla staði,“ segir Ögmundur.