Fyrsta heimsóknin hafin

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú heimsækja nú Sólheima í Grímsnesi. Heimsóknin hófst við Vigdísarhús þar sem tekið var á móti forsetahjónum en síðan var gengið að Sesseljuhúsi, upplýsinga- og fræðslumiðstöð um umhverfismál.

Pétur Sveinbjarnarson stjórnarformaður Sólheima rak þar sögu Sólheima í stuttu máli og Guðmundur Ármann Pétursson framkvæmdastjóri gerir grein fyrir þeirri fjölþættu starfsemi sem þar fer fram. Þá munu forsetahjónin skoða sýninguna Sjálfbærni Sólheima og sjálfbæra heimilið.

Eftir hádegisverð með íbúum Sólheima heimsækja forsetahjónin síðan vinnustofur, verkstæði og fyrirtæki Sólheima, kynna sér kertagerð og smíðaverkstæði, listasmiðju, vefstofu, leirgerð og jurtastofu og skoða sýninguna Lyst á list.

Forsetahjónin munu síðan gróðursetja tré við Sólheimakirkju og dagskránni lýkur með kveðjustund í kirkjunni þar sem Sólheimakórinn flytur tvö lög undir stjórn Lárusar Sigurðarsonar og forseti Íslands flytur ávarp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert