Hafnarfjarðarbær hefur látið mála vegg hússins við Strandgötu 4 í litum baráttufána hinsegin fólks sem minnisvarða um brautryðjendastarf Hafnarfjarðar í málefnum hinsegin fólks. Á sama tíma á veggurinn að vera áminning um áframhaldandi baráttu fyrir fordómalausu samfélagi og jöfnum tækifærum fyrir alla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum.
Verkefnið var unnið í samstarfi við Bersann, félag ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær hefur tekið virkan þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga síðustu ár en í ár verður gengið undir slagorðinu: Mannkynið er okkar kynþáttur. Ást er okkar trú.
Uppruni slagorðs er erlendur en þýðing var í höndum þeirra ungmenna sem sjá um undirbúning verkefnisins og þykir slagorðið viðeigandi á þessum degi sem og alla aðra daga. „Slagorðið færir fallegan boðskap, fagnar fjölbreytileikanum og vekur á sama tíma fólk til umhugsunar,“ segir í tilkynningunni.
Búist er við að um 30 ungmenni á aldrinum 15 til 22 ára leiði framlag Hafnarfjarðarbæjar til gleðigöngunnar í ár undir stjórn Jafningjafræðslunnar Competo ásamt listahópi og skapandi sumarstörfum hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Hluti þeirra mun flytja tónlistaratriði á palli og skorað er á alla starfsmenn, íbúa Hafnarfjarðarbæjar, fjölskyldur þeirra og aðra áhugasama að taka þátt í gleðinni með því að ganga til liðs við hópinn, mæta í einhverju gulu eða fjólubláu og ganga á eftir bíl bæjarins.
Í tilkynningunni er haft eftir Haraldi L. Haraldssyni, bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, að Hafnarfjarðarbær hafi rutt veginn í fyrra „með samningi við Samtökin´78 um fræðslustarf sem hefur það að markmiði að auka þjónustu við nemendur og starfsfólk grunnskóla með fræðslu um málefni hinsegins fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda.“ Fræðslan mun hefjast í grunnskólum Hafnarfjarðar nú í haust.