Reykjavíkurborg mun á næstunni ráðast í framkvæmdir við Nauthólsveg 100, þar sem á að endurbyggja bragga, skemmu og náðhús og reisa tengibyggingu milli húsanna.
Nýverið sótti Reykjavíkurborg um leyfi byggingarfulltrúa Reykjavíkur til þess að ráðast í framkvæmdirnar.
Samkvæmt fundargerð byggingarfulltrúans á að endurbyggja braggann og tengdar byggingar, en það voru Bretar sem reistu byggingarnar á stríðsárunum. Í bragganum á að vera félagsaðstaða og veitingasala fyrir stúdenta við Háskólann í Reykjavík, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.