Óskar Jósefsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála. Tók hann til starfa í gær. Hann var valinn úr hópi 42 umsækjenda um starfið, en starfið var auglýst laust til umsóknar í maímánuði.
Hagvangur annaðist ráðningaferlið ásamt stjórn rekstarfélagsins.
Hörður Þórhallsson var ráðinn framkvæmdastjóri stjórnstöðvarinnar tímabundið til sex mánaða til þess að koma verkefninu af stað á sínum tíma. Hann hætti í sumar og var ráðinn forstjóri heilbrigðisfyrirtækisins Icepharma hf.
Frétt mbl.is: Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála
Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að Óskar hafi víðtæka stjórnunarreynslu og starfað við stjórnendaráðgjöf til margra ára, bæði á almennum og opinberum markaði.
„Hann hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, stofnaði ráðgjafarfyrirtækið Advance ehf. árið 2008 og hefur rekið það síðan, auk þess að sinna ýmsum öðrum verkefnum. Hann hefur fjölbreytta reynslu af því að leysa flókin verkefni og tók meðal annars við stöðu forstjóra hjá Landssíma Íslands hf. á umbrotatímum og leiddi fyrirtækið í gegnum þá. Hann var forstjóri Ístaks hf. og framkvæmdastjóri upplýsinga- og tæknisviðs Kaupþings banka, auk þess sem hann stýrði ráðgjafastarfsemi PwC um nokkura ára skeið,“ segir í tilkynningunni.
Óskar er verkfræðingur með M.Sc. gráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá Danmörku.
Hann segir starfið mjög áhugavert að takast á við. Mörg spennandi verkefni bíða.
„Innleiðing Vegvísis er komin vel af stað og mikilvægt að halda áfram að vinna að enn frekari samhæfingu og samþættingu verkefna á sviði ferðamála. Flest bendir til þess að áfram verði öflugur vöxtur í ferðaþjónustu. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir ýmsum áhugaverðum áskorunum við að byggja upp sem besta umgjörð um þessa atvinnugrein og með þeim hætti að um hana ríki sátt í samfélaginu,“ segir hann.
Ríkið og Samtök ferðaþjónustunnar stofnuðu í vor sameignarfélag um rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Nafn þess er Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála sf. og er það í 50% eigu ríkissjóðs og 50% í eigu Samtaka ferðaþjónustunnar. Stjórnstöð ferðamála er samstarfsvettvangur stjórnvalda, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar. Stjórnstöð ferðamála mun starfa til ársloka 2020 og er henni ætlað að vinna að innleiðingu þeirra verkefna sem sett voru fram í Vegvísi í ferðaþjónustu.