19 ára grunaður um tvær nauðganir

mbl.is/Malín Brand
Nítján ára piltur er grunaður um nauðganir á tveimur 15 ára stúlkum. Áttu meint brot sér stað með einungis sex daga millibili. Fyrra málið kom upp í lok júlí en fór Lögreglan á Suðurnesjum, þar sem brotið mun hafa átt sér stað, þá ekki fram á gæsluvarðhald. Fréttatíminn greinir frá þessu.

Seinna málið kom upp á höfuðborgarsvæðinu sex dögum síðar og fór Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þá fram á gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Pilturinn, sem ekki hefur áður komið við sögu lögreglu, verður látinn laus í dag.

Ný frétt: Pilturinn í gæsluvarðhald til 19. ágúst

Fréttatíminn hefur eftir Unnari Steini Bjarndal, skipuðum verjanda piltsins, að hann hafi ekki upplýsingar um hvort verður farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald en rannsókn málanna sé á upphafsstigi.

Samkvæmt heimildum Fréttatímans barst Neyðarlínunni símtal á sunnudag þar sem óskað var eftir sjúkrabíl að heimili í Grafarvogi. Voru þar nokkur ungmenni saman komin í íbúð þegar óp og grátur bárust úr herbergi í íbúðinni þar sem inni voru 15 ára stelpa og pilturinn 19 ára. Voru þá dyr herbergisins læstar og reyndu viðstaddir að fá þau til að opna herbergið. Loks hafi pilturinn komið til dyra og strunsaði út úr íbúðinni.

Stúlkan var flutt á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota á Landspítalanum og handtók lögregla piltinn, sem hafði hlaupið út í fjöru og mun ástand hans hafa verið annarlegt.

Vöknuðu grunsemdir um að pilturinn hefði framið fleiri kynferðisbrot og kom þá í ljós Lögreglan á Suðurnesjum hafði sambærilegt mál til rannsóknar. Í fyrra málinu var pilturinn handtekinn og yfirheyrður undir morgun en síðan sleppt. Fékk stúlkan aðhlynningu á Neyðarmóttöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert