Ný vatnslögn undir Miklubraut

Markmið framkvæmdanna er að leggja nýja stofnæð vatnveitunnar undir Miklubrautina …
Markmið framkvæmdanna er að leggja nýja stofnæð vatnveitunnar undir Miklubrautina að nýju lokahúsi sem byggt verður suðvestan við gatnamótin. Ljósmynd/Veitur

Um helgina hefjast Veitur handa við að leggja nýja stofnæð vatnsveitu undir Miklubraut, rétt vestan Kringlumýrarbrautar. Reikna má með að umferð gangi hægar um gatnamótin þá daga sem framkvæmdir standa yfir. Þær hefjast á morgun, föstudagskvöldið 5. ágúst, og á að vera lokið að morgni fimmtudagsins 11. ágúst.

Verkefnið er unnið í tveimur áföngum þar sem akbrautum Miklubrautar verður lokað, annarri akstursstefnunni í einu, og tvístefna á þeirri akbraut sem opin verður. Byrjað verður á nyrðri akbrautinni.

Vegfarendum er bent á að leiðirnar um Sæbraut eða Bústaðaveg geta verið fljótfarnari milli borgarhluta meðan á lokunum stendur, einkum á annatíma.

Tvær akstursleiðir verða lokaðar meðan á framkvæmdum stendur.

  • Ekki verður hægt að taka hægri beygju af Kringlumýrarbraut inn á Miklubraut til vesturs.
    Ökumönnum er bent á að fara um Skipholt og Lönguhlíð.
  • Lokað verður inn á Miklubraut til vesturs frá afrein eftir undirgöngin frá Kringlunni.
    Ökumönnum er bent á að fara um Listabraut og Kringlumýrarbraut að gatnamótunum við Miklubraut.

Lokanir og hjáleiðir eru sýndar á meðfylgjandi uppdráttum.

Endurnýjun gamalla lagna

Markmið framkvæmdanna er að leggja nýja stofnæð vatnveitunnar undir Miklubrautina að nýju lokahúsi sem byggt verður suðvestan við gatnamótin, segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur. Hún kemur í stað lagnar sem lögð var á 7. áratug síðustu aldar. Endurnýjunin er þáttur í að tryggja afhendingaröryggi kalds vatns til neyslu og brunavarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert