Langt frá því að vera einfalt verkefni

Ferðaþjónustan hefur átt stóran þátt í þeim hagvexti sem verið …
Ferðaþjónustan hefur átt stóran þátt í þeim hagvexti sem verið hefur á Íslandi undanfarin ár. mbl.is/Ómar

„Þetta er mjög áhugavert og spennandi starf. Það er væntanlega með stærri áskorunum sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir, bæði með tilliti til umhverfis- og náttúrumála og þjóðarinnar sjálfrar, hvernig við tökum á móti ferðamönnum, tryggjum velferð þeirra og upplifun þegar þeir ferðast hér um landið og sýnum þeim gestrisni,“ segir Óskar Jósefsson, nýr framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, en hann tók til starfa á miðvikudag.

Stjórnstöð ferðamála er samstarfsvettvangur stjórnvalda, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónstunnar. Hún mun starfa í fimm ár, til loka árs 2020, og mun á þeim tíma samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í sam­vinnu við opin­berar stofn­anir og hags­muna­að­ila í ferða­þjón­ustu. Er markmiðið að leggja þann trausta grunn sem kallað er eftir í íslenskri ferðaþjónustu, sem hefur vaxið verulega undanfarin ár og er nú orðinn einn meginútflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar.

Hörður Þórhallsson var ráðinn framkvæmdastjóri stjórnstöðvarinnar tímabundið, en hann lét af störfum í sumar og var þá starfið auglýst laust til umsóknar. Var Óskar valinn úr hópi 42 umsækjenda.

Verkefni stjórnstöðvarinnar eru skilgreind í ferðamálastefnu stjórnvalda, Vegvísi í ferðaþjónustu, sem samþykkt var síðasta haust.

Verkefnin eru mörg og fjölbreytt, en þau fela meðal annars í sér samhæfingu og einföldun stjórnkerfis, fjármögnun innviða, náttúruvernd, faglega uppbyggingu greinarinnar og gæðastarf.

Frétt mbl.is: Óskar stýrir Stjórnstöð ferðamála

Óskar segist ekki eiga von á því að sér fylgi miklar áherslubreytingar í starfi. „Ég kem inn í þau verkefni sem eru í vinnslu og held áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð. Þegar fram líða stundir, og ég hef fengið meiri innsýn inn í starfið, þá getur vel verið að það verði einhverjar áherslubreytingar, en þær verða aldrei neitt stórvægilegar í sjálfu sér.“

Vöxturinn reynt mjög á innviðina

Hann segir ljóst að vöxturinn í ferðaþjónustunni undanfarin fjögur til fimm ár hafi reynt mjög á innviði landsins.

Óskar Jósefsson.
Óskar Jósefsson. Ljósmynd/Atvinnuvegaráðuneytið

„Í þeim efnum hafa ýmis brýn verkefni verið sett af stað sem snúa að bæði uppbyggingu ferðamannastaða og umgjörð í kringum þá. Einnig verkefni sem snúa að samgöngum, löggæslu, öryggismálum og annarri innviðauppbygginu. Mörg verkefni eru í vinnslu, eins og Vegvísirinn í ferðaþjónustu sem áfram verður unnið með, þar til þau fara í framkvæmdafarsa,“ útskýrir Óskar.

Auk þess þurfi áfram að kanna hugmyndir um gjaldtöku á ferðamannastöðum og taka til skoðunar þann kostnað sem fellur til vegna þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands; hvernig hægt sé að mæta þeim kostnaði sem myndast, skapa tekjur gagnvart honum og ráðstafa á móti.

Horfa til sjávarútvegarins

„Við erum einnig að kortleggja gagnaöflunina og úrvinnslu upplýsinga sem snúa að atvinnugreininni,“ segir Óskar og bendir á að í þeim efnum sé hægt að horfa til sjávarútvegarins og hvernig sú atvinnugrein hefur náð að nýta gögn til grundvallar ákvarðanatöku og markmiðssetningu í greininni.

Enn sé mikið verk fyrir höndum innan ferðaþjónstunnar, þessarar ungu atvinnugreinar, að safna gögnum til upplýsinga um þróun og til grundvallar skynsamlegum ákvörðunum.

Mikill vöxtur í ferðaþjónustu hefur reynt á innviði landsins.
Mikill vöxtur í ferðaþjónustu hefur reynt á innviði landsins. mbl.is/Ómar

Allir tali saman

Hann segir að hlutverk stjórnstöðvarinnar sé að tengja saman hagsmunaaðila innan ferðaþjónstunnar, þannig að allir tali saman. „Stjórnstöðin er það afl sem á að tryggja að hagaðilar, bæði innan stjórnsýslunnar og atvinnugreinarinnar sjálfrar, tali saman, komi sínum sjónarmiðum á framfæri og komist að niðurstöðu um hvernig við getum best undirbúið okkur undir það að taka á móti stöðugt vaxandi ferðamannastraumi til landsins.“

Hann segir aðferðafræðina á bak við stjórnstöðina nýstárlega og spennandi. „Markmiðið með aðferðafræðinni er að ná fram meiri skilvirkni í kerfisaðlögun hjá okkur og gera skynsamlegar breytingar.

Þetta er umfangsmikið verkefni og langt frá því að vera einfalt í framkvæmd, en aðferðafræðin er áhugaverð og ég hef fulla trú á því að hún muni skila árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka