Orkuveitu Reykjavíkur þykir það miður að framkvæmdir við lagningu nýrrar stofnæðar vatnsveitu undir Miklubraut skuli fara fram á sama tíma og Hinsegin dagar eru haldnir í Reykjavík þegar mikið margmenni verður á ferðinni.
Framkvæmdirnar hefjast í kvöld og þeim lýkur í að morgni 11. ágúst.
Framkvæmdirnar áttu að hefjast 24. júlí en þeim varð að fresta vegna þess að ekki var hægt að fá malbik þar sem allar malbikunarstöðvar voru lokaðar vegna sumarfría.
„Því meiri umferð sem er því meiri röskun er af þessum framkvæmdum og okkur þykir það miður. En sem betur fer er það ekki oft sem við þurfum að fara í þessar helstu umferðaræðar,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar.
Frétt mbl.is: Ný vatnslögn undir Miklubraut
Verkefnið er unnið í tveimur áföngum þar sem akbrautum Miklubrautar verður lokað, annarri akstursstefnunni í einu, og tvístefna á þeirri akbraut sem opin verður. Byrjað verður á nyrðri akbrautinni.
Vegfarendum er bent á að leiðirnar um Sæbraut eða Bústaðaveg geta verið fljótfarnari milli borgarhluta meðan á lokunum stendur, einkum á annatíma.
Auk þess að leggja nýja stofnæð vatnsveitu segir Eiríkur að ídráttarrör fyrir rafmagn verði einnig lagt í jörðina ef á þarf að halda þegar fram í sækir.
„Það verða unnir langir dagar, þannig að þetta taki sem allra skemmstan tíma,“ segir hann.