Steinn Ármann hjólar um fjöll og firnindi

Steinn Ármann Magnússon leikari og hjólreiðakappi.
Steinn Ármann Magnússon leikari og hjólreiðakappi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Steinn Ármann Magnússon leikari segir að stórsjái á sér síðan hann fór að fara allra sinna ferða hjólandi og þar fyrir utan í hjólreiðaferðir um borgina og upp um fjöll og firnindi með erlenda túrista. Mælikvarðinn er 23 kíló. Á morgun hverfur hann á vit fortíðar með hóp fólks í hjólaleiðsögn um Viðey.

Steinn Ármann Magnússon, leikari, skemmtikraftur og uppistandari, hefur verið á hjólum kringum túrista allar götur frá því hann lauk námi í Leiðsöguskólanum fyrir hartnær sex árum. „Konan eiginlega rak mig út í þetta, það var eitthvað lítið að gera í leiklistinni,“ segir hann. Fjallahjólaferðir út um hvippinn og hvappinn sem og styttri hjólreiðatúrar um borgina þar sem hann er leiðsögumaður hafa síðan nánast verið daglegt brauð auk þess sem hann fer allra sinna ferða hjólandi.

Þegar hann er ekki í hlutverki leiðsögumannsins talsetur hann barnaefni og tekur annað slagið að sér ýmis hlutverk í leikhúsum, sjónvarpi og kvikmyndum. Á sunnudaginn er honum þó ekki til annarrar setu boðið en hjólasetu frekar en aðra daga vikunnar. Hjólaleiðsögn um Viðey stendur fyrir dyrum upp úr hádeginu á morgun. „Fólk bara mætir með hjólin sín í ferjuna við Skarfabakka. Eftir að lagt er að bryggjunni í Viðey verður haldið sem leið liggur í eins og hálfs tíma hjólareiðatúr,“ upplýsir Steinn Ármann, sem telur líklegt að hópurinn samanstandi mestmegnis af fróðleiksfúsum Íslendingum á öllum aldri. Sjálfur hefur hann vitaskuld stúderað sögu þessarar merkilegu eyju og hyggst miðla úr viskubrunni sínum á leiðinni. „Nei, ekki á meðan við hjólum,“ svarar hann fremur hugsunarlausri spurningu.

Talar meira en hjólar

„Við stoppum á völdum stöðum. Ég tala náttúrlega meira en hjóla og hópurinn hlustar þar af leiðandi meira en hjólar. Viðey er ekkert sérstaklega vel til hjólreiða fallin, en ég er búinn að skipuleggja leiðina og sneiði hjá grýttum jarðvegi og mýrum. Hjólaleiðin er hvorki löng né strembin og ætti að henta vel bæði hjólagörpum og öllum sem hafa gaman af að hjóla.“

Sjónum verður ekki sérstaklega beint að náttúrufegurð eyjunnar heldur ætlar Steinn Ármann að hverfa með hópinn á vit fortíðar. „Stórmerkilegt hvað margir bjuggu þarna á sínum tíma og lifðu af landsins gæðum. Trúlega nefni ég munkana til sögunnar, Skúla fógeta og stikla á stóru um alls konar tilraunir sem þarna voru gerðar, til dæmis með ræktun tóbaks og kúmens, og sitthvað fleira.“

Leiðsögumaðurinn Steinn Ármann hefur marga fjöruna sopið. Þegar Kajakafélag Reykjavíkur bað hann um leiðsögn um Viðey í fyrrasumar fylgdi með í kaupunum að róa þangað á kajak. „Ég fékk að vísu smá leiðsögn um hvernig ég ætti að bera mig að ef bátnum hvolfdi, en var satt að segja með lífið í lúkunum allan tímann,“ viðurkennir hann.

Hausinn eins og landakort

Kajakróður heillar Stein Ármann ekkert tiltakanlega, en hann telur þó ekki loku fyrir það skotið að taka aftur í árarnar. Hjólreiðar eru meira í hans anda, þótt ekki séu þær með öllu hættulausar. „Ég hef verið keyrður þrisvar sinnum niður á götum með tiltölulega lágum hámarkshraða, en varð ekki meint af. Fékk reyndar gat á hausinn í eitt skiptið eins og oft þegar ég var yngri. Þegar ég er snöggklipptur segir konan mín að hausinn á mér sé eins og landakort af Evrópu.“

Eru öll þessi göt af völdum hjólreiðaslysa?

„Ekkert endilega, bara af öllum fjandanum, aðallega frá því ég var strákur að leika mér í hrauninu í Hafnarfirði. Á þeim tíma hjólaði ég reyndar heilmikið, þótt ég fengi ekki hjólreiðadellu fyrr en um 1990 þegar við Helga Braga vorum að gera þættina Ungmennafélagið með Valgeiri Guðjónssyni. Þessar týpur sem við lékum voru mikið á fjallahjólum og fóru vítt og breitt um landið. Í framhaldinu fengum við góðan díl hjá Erninum og keyptum okkur öll fjallahjól, ábyggilega ein þau fyrstu sem komu til landsins.“

Þessu fyrsta fjallahjóli var stolið nokkru síðar og Steinn Ármann fjárfesti ekki í almennilegu hjóli fyrr en um aldamótin þegar synir hans voru orðnir nógu gamlir til að hjóla. „Síðan hef ég meira og minna verið hjólandi hvernig sem viðrar allan ársins hring. Lágmark 30 kílómetra á dag því ég hjóla á hverjum degi frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og til baka. Hvor leiðin tekur aðeins 45 mínútur.“

Mikil heilsubót væntanlega?

„Það stórsér á mér. Ég var 100 kíló áður en ég fór að hjóla að staðaldri, en er núna 77 kíló.“

Upp um fjöll og firnindi

En kannski þarf að hjóla meira en leiðina Hafnarfjörður – Reykjavík – Hafnarfjörður til að ná af sér 23 kílóum. Að minnsta kosti er Steinn Ármann stöðugt á hjólaferðinni með erlenda túrista um borgina eða upp um fjöll og firnindi. „Í gær hjólaði ég til dæmis rosalega skemmtilega og vinsæla leið, Jaðarinn, um 45 kílómetra leið frá Bláfjallaveginum og niður í Heiðmörk. Þessar hjólaferðir eru á vegum Bike Company, þar sem ég starfa sem verktaki, og í þær sækja túristar af öllum þjóðernum,“ segir Steinn Ármann og lætur þess getið að Evrópubúar séu mun flinkari hjólreiðamenn en Bandaríkjamenn og Kínverjar áberandi lélegastir.

Hefur losnað við 23 kíló eftir að hann fór að …
Hefur losnað við 23 kíló eftir að hann fór að hjóla að staðaldri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Líkt og í Viðey segist hann tala meira en hjóla á ferðum sínum með hópa um miðborgina.

Um hvað helst?

„Það sem við blasir; Stjórnarráðið, Alþingishúsið til dæmis. Svo minnist ég kannski á Panamaskjölin.“

Samkvæmt heimasíðu Bike Company ættu túristarnir ekki að verða sviknir af leiðsögninni. Þar er Steini Ármanni lýst sem ástsælum og farsælum gamanleikara með sagnagáfuna í blóðinu. Tekið er fram að hann hafi sérstakt lag á að sjá fyndnar hliðar á þjóðarsálinni.

Biður landinn þig ekki stundum um að skemmta sér?

„Ekki oft sem betur fer, mér finnst leiðinlegt að skemmta núorðið. Hins vegar er ég orðinn svolítið heitur fyrir fastráðningu í leikhúsi, svona af praktískum ástæðum, maður er orðinn svo gamall,“ segir þessi rúmlega fimmtugi hjólreiðakappi og gefur nokkur ráð í lokin.

„Aðalmálið er að klæða sig rétt, hvorki of mikið né lítið, vera vel skóaður og forðast bómullarflíkur. Á veturna er líka nauðsynlegt að vera á góðum nöglum og hafa ljósabúnaðinn í lagi.“

Hjólaleiðsögn með Steini Ármanni í Viðey hefst kl. 13.30, sunnudaginn 7. ágúst. Siglt frá Skarfabakka kl. 13.15.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert