„Nýmælin sem felast í þessu eru ekki meiri en svo að ákvæði sem heimilar stjórn LÍN að útvista útborgun lána, innheimtu og daglega afgreiðslu hefur verið svo til óbreytt í lögum um lánasjóðinn í að minnsta kosti hálfa öld, eða frá árinu 1961,“ segir Jóhannes Stefánsson aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar um umsögn BHM um LÍN-frumvarp menntamálaráðherra.
Í umsögn sinni um frumvarpið gerir BHM athugasemd „við þau áform, sem felast í frumvarpinu, að heimila stjórn LÍN að útvista daglegum rekstri sjóðsins.“Enn fremur segir: „Að mati bandalagsins verður ekki séð að þörf sé á því að færa afgreiðslu námslána til einkafyrirtækja.“
„Það er samskonar ákvæði í 5. gr. í núgildandi lögum, sem eru frá árinu 1992. Það er því ekki um neina breytingu að ræða í þessum efnum, þetta virðist því vera byggt á misskilningi,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.
Í 3. mgr. 5. gr. laga um lánasjóð íslenskra námsmanna segir: „Stjórn sjóðsins er heimilt að fela bankastofnunum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu.“
BHM áréttar í umsögn sinni gagnrýni á það fyrirkomulag að lánsfjárhæðir fari eftir félagslegri stöðu fólks og segir að vegna þessa skuldi fjölskyldufólk og einstæðir foreldrar almennt meiri námslán að loknu námi en þeir sem einir eru. Þá hvetur BHM til þess að frekari umræða og vinna fari fram „til að tryggja að greiðslubyrði námslána verði áfram sanngjörn líkt og í núverandi kerfi.“
Jóhannes segir að ætlunin með frumvarpinu sé fyrst og fremst að tryggja öllum fulla framfærslu sem er ekki í núverandi kerfi, að gera námsstyrkina gagnsæja og sýnilega og að tryggja jafna dreifingu á styrkjum til námsmanna.
„Í núverandi kerfi er mjög ójafnt gefið. Það eru litlir hópar námsmanna sem hafa þegið hundruð milljóna í rikisstyrki á meðan stærstur hluti námsmanna hefur þurft að borga megnið af lánunum sínum til baka að fullu. Þar að auki þekkist það að lántakendur séu enn að borga af námslánunum eftir að þeir hætta að vinna, sem er auðvitað ekki æskilegt.“
„Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er verið að draga úr skuldsetningu og lækka greiðslubyrði hjá stærstum hópi nemenda með skynsamlegum kerfisbreytingum. Það er mikilvægt að halda því til haga í samhengi við umsögn BHM að það er verið að taka upp svipað endurgreiðslufyrirkomulag og þekkist á hinum norðurlöndunum og það skiptir líka miklu máli að greiðslubyrði 85% þeirra sem taka lán hjá sjóðnum kemur til með að haldast óbreytt eða lækka,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.