Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hefur sagt upp störfum hjá 365. Hún hefur hefur gegnt stöðunni í tæpt ár, en Fanney Birna tók við henni í ágúst 2015.
Í tilkynningu sem samþykkt var á fundi starfsmanna í gær og send til fjölmiðla í dag kom fram að starfsmenn Fréttablaðsins og Vísis, „mótmæla harðlega óverðskuldaðri uppsögn yfirmanns ljósmyndadeildar 365, Pjeturs Sigurðssonar.“
Frétt mbl.is: Mótmæla harðlega uppsögn Pjeturs
Fanney Birna staðfesti frétt Kjarnans í samtali við mbl.is. Spurð um ástæðu uppsagnarinnar og hvort hún tengist uppsögn Pjeturs sagðist hún ekki vilja tjá sig um málið.
Fréttatíminn greindi frá því um helgina að aðalritstjóri 365 miðla, Kristín Þorsteinsdóttir, hefði sagt Pjetri upp störfum. Hann var í fréttinni sagður hafa sakað hana um að leggja sig í einelti. Þá hafði Fréttatíminn heimildir fyrir því að slegið hefði í brýnu á starfsmannafundi eftir uppsögnina á milli starfsfólks og ritstjórans. Starfsmannastjórinn, sem hafði athugað málið, hefur sagt upp störfum.
Tilkynning starfsmanna, sem send var út í morgun, í heild:
„Við, starfsmenn Fréttablaðsins og Vísis, mótmælum harðlega óverðskuldaðri uppsögn yfirmanns ljósmyndadeildar 365, Pjeturs Sigurðssonar. Jafnframt eru hörmuð óásættanleg vinnubrögð aðalritstjóra og yfirstjórnar fyrirtækisins í aðdraganda uppsagnar Pjeturs og við kynningu á henni til samstarfsmanna hans.
Við beinum því til stjórnar og stjórnenda 365 að tryggja að slík framganga, sem grefur undan faglegum grunni og trúverðugleika fréttastofunnar, geti ekki endurtekið sig.
Pjetur Sigurðsson hefur þriggja áratuga reynslu sem blaðaljósmyndari. Þar af þrettán ára starfsferil hjá Fréttablaðinu og Vísi. Hann á að baki farsælan feril og hefur reynst góður samstarfsmaður.
Við teljum að öll meðferð málsins hafi skaðað alvarlega það traust sem verður að ríkja innan ritstjórnarinnar.
Samþykkt einróma á fundi starfsmanna Fréttablaðsins og Vísis 8. ágúst 2016.“