Spennt og þakklát fyrir boðið til Íslands

Stjórn Tólfunnar hefur samþykkt að aðstoða við söfnunina og við …
Stjórn Tólfunnar hefur samþykkt að aðstoða við söfnunina og við að gera upplifun þeirra Adam og Catherine á Íslandi sem eftirminnilegasta. mbl.is/Golli

„Þau eru svo gríðarlega spennt og þakklát fyrir það sem allir hafa verið að bjóða þeim, þetta er ótrúlega gaman,“ segir Hannes Freyr Sigurðsson, sem í síðasta mánuði fékk þá hugmynd að bjóða breskum stuðningsmanni Íslands sem stunginn var í París hingað til lands. Nú er nánast búið að klára að skipuleggja ferðina, en maðurinn kemur hingað til lands ásamt kærustu sinni í október næstkomandi.

Er enn að jafna sig eftir árásina

Maðurinn, sem heitir Adam Williams og er lögreglumaður, varð fyrir árás eftir leik Frakklands og Íslands á EM. Hann var á leiknum ásamt Catherine kærustu sinni, en eftir leikinn fóru þau á bar við lestarstöðina Gare du Nord. Þar varð Adam fyrir tilefnislausri árás, en árásarmaðurinn stakk hann tvisvar með hníf.

Í kjölfarið fór Adam í langa og erfiða aðgerð og er enn að jafna sig. Hann hélt loks heim til London miðvikudaginn 13. júlí, tíu dögum eftir aðgerðina, og er enn í endurhæfingu. Að sögn Hannesar ætlar hann sér að vera kominn í gott form þegar kemur að ferðinni til Íslands.

Verður nóg að gera hjá parinu á Íslandi

Stuttu eftir árásina deildi Hannes frétt um at­vikið í face­book­hópnum „Ferðagrúppa fyr­ir EM 2016“ og óskaði eft­ir til­lög­um um hvað hægt væri að gera fyr­ir mann­inn. Fljót­lega kom upp sú hug­mynd að bjóða hon­um hingað til lands ásamt kærustu hans á næsta heima­leik ís­lenska liðsins. Sá leik­ur fer fram 6. októ­ber nk. gegn Finn­landi. Síðar var ákveðið að bjóða þeim einnig á næsta leik eftir það, sem fer fram 9. október og er gegn Tyrklandi.

Adam og Catherine koma því hingað til lands hinn 3. október næstkomandi og verða á landinu í átta daga eða til 11. október. Fjölmörg fyrirtæki hafa boðið fram þjónustu sína og hafa þegar verið útvegaðir flugmiðar báðar leiðir, gisting, þyrluflug, dagsferðir til að skoða náttúru Íslands, miðar á leiksýningu, kvöldmatur, landsliðs- og Tólfubúningar og akstur til og frá flugvellinum.

Ljóst er að nóg verður að gera hjá parinu hér á landi. „Það var auðvelt að bóka gistinguna því það voru svo margir búnir að bjóða fram þjónustu sína. Svo höfum við verið að púsla saman dagsferðum og þess háttar núna. Þau gætu alveg verið lengur hérna miðað við allt sem er búið að bjóða þeim, og þau myndu hafa nóg að gera,“ segir Hannes.

Parið mun mæta með Tólfunni á leikdag til að hita upp fyrir leikina og kynnast stuðningsmönnum Íslands betur. Adam hefur einnig óskað eftir því að fá að þakka fyrir sig í hálfleik ef það er möguleiki. 

Ferðin verði alfarið í boði Íslendinga

Þá var ákveðið að setja af stað söfnun fyrir parið til að ferðin yrði þeim algjörlega að kostnaðarlausu. „Markmið söfnunarinnar er ekki að safna miklum fjármunum heldur aðeins nægu til að þau geti leigt sér bílaleigubíl og borðað á meðan þau eru hér á landi í boði okkar,“ segir Hannes. Adam óskaði hins vegar eftir því að helmingur þess fjár sem safnaðist yrði gefinn til innlendra góðgerðarmála, nánar tiltekið til Barnaspítala Hringsins og til Landsbjargar.

„Þau hafa sagt að þau muni aldrei geta þakkað okkur nógu mikið fyrir góðmennsku okkar eftir þessa erfiðu reynslu og vilja því sýna þakklæti sitt með þessu móti.“

Hefur lengi langað að heimsækja Ísland

Hannes segir að það sé sérstaklega ánægjulegt að bjóða parinu hingað þar sem Adam og Catherine hafi talað um það lengi að heimsækja Ísland. „Þetta er einn af þeim stöðum sem þau langaði mest að ferðast til og það var því sérstaklega gaman að það væri verið að bjóða þeim hingað. Þau eru strax farin að huga að næstu ferð því það er svo margt hér sem þau langar að sjá.

Eftir að Adam voru færðar fréttirnar sagðist hann vera djúpt snortinn og að stuðningurinn hefði skipt sköpum á erfiðum tímum. „Þið hafið snert okk­ur bæði með góðmennsku ykk­ar og stuðning­ur­inn hef­ur end­ur­reist trú okk­ar á mann­kynið,“ sagði hann. „Ég lít svo á að þið hafið fært okk­ur norður­ljós­in ykk­ar á dimm­um tím­um.“

Fyrir þá sem vilja styrkja parið við komuna hingað til lands er reikningsnúmerið 515-14-411483 og kennitalan 521113-0650 en reikningurinn er á nafni Tólfunnar.

Frétt mbl.is: Djúpt snortinn yfir stuðningi Íslendinga

Frétt mbl.is: Hrærð yfir boðinu til Íslands

Frétt mbl.is: Vilja bjóða stuðnings­manni til Íslands

Frétt mbl.is: Stuðnings­maður Íslands stung­inn í Par­ís

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka