Annar maðurinn 28 ára, hinn 29 ára

Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti á föstudagskvöldið.
Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti á föstudagskvöldið. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Karlmennirnir tveir sem sæta gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á skotárás í Breiðholti á föstudagskvöld eru 28 ára og 29 ára, eða fæddir árin 1988 og 1987. Þeir eru báðir íslenskir ríkisborgarar en af erlendu bergi brotnir. Mennirnir hafa báðir komið við sögu hjá lögreglu áður.

Þetta staðfestir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar LRH, í samtali við blaðamann mbl.is. Gæsluvarðhald yfir mönnunum rennur út á föstudaginn, 12. ágúst.

Uppfært kl. 13.51:
mbl.is greindi fyrst frá því að annar maðurinn væri 17 ára og hinn 37 ára. Hið rétta er að annar maðurinn er 28 ára og hinn 29 ára, eða fæddir árin 1988 og 1987. Rangar upplýsingar bárust frá lögreglu sem hefur nú leiðrétt upplýsingarnar. 

Hald hefur verið lagt á eitt skotvopn vegna rannsóknar málsins en það er talið vera vopnið sem notað var til að skjóta á fólksbíl um kvöldið. Þrír voru í bílnum sem skotið var á en enginn slasaðist.

Rannsókn málsins er í fullum gangi, að sögn Friðrik Smára. Aðspurður segir hann lögreglu ekki hafa náð almennilega utan um hverjir hafa verið meðal þeirra sem tókust á. Um tuttugu til þrjátíu manns hafi verið að ræða.

Segir hann allt benda til þess að fólkið í bílnum hafi tengst deilunum, að ekki hafi verið um handahófskennda árás á almenning að ræða. Þá segir Friðrik Smári að eftir eigi að koma í ljós hvort vopnið hafi verið skráð og lögregla viti ekki til þess að önnur vopn hafi verið sýnileg í átökunum um kvöldið.

Frá aðgerðum lögreglu á föstudagskvöld.
Frá aðgerðum lögreglu á föstudagskvöld. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Atburðarás síðustu daga

Slagsmál brutust út fyrir utan söluturn í Iðufelli í Breiðholti snemma kvölds föstudaginn 5. ágúst. Lögregla kom á staðinn en fór skömmu síðar í burtu.

Um kl. 21 kom aftur til átaka, byssuskot heyrðust og óskað var eftir aðstoð lögreglu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru kallaðar út vegna tilkynningarinnar, líkt og kom fram í tilkynningu sem send var til fjölmiðla.

Hverfinu var lokað af lögreglu. Skömmu eftir kl. 23 barst önnur tilkynning frá lögreglu þar sem fólk í Fellahverfinu í Breiðholti var beðið um að vera ekki á ferli.

Rétt fyrir klukkan hálftvö um nóttina barst þriðja tilkynningin frá lögreglu. Þar kom fram að lögregla á höfuðborgarsvæðinu leitaði tveggja manna og ökutækis í kjölfar aðgerða hennar og sérsveitar í Fellahverfinu. Þar kom einnig fram að tilkynnt hefði verið um tvo skothvelli og vitni hefðu greint frá því að skotið hefði verið á bíl. Mennirnir tveir sem leitað var að væru grunaðir um skotárásina. Hvatti lögregla mennina til að gefa sig fram, sem og þá sem voru í bifreiðinni.

Á laugardagsmorgninum sagði Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að um þröngan hóp hefði verið að ræða sem virðist hafa verið að gera upp sakir sem þeir áttu sín á milli. Sagði hann einnig að lögregla teldi sig vita hverjir mennirnir tveir, sem þá var leitað að, væru.

Frá aðgerðum lögreglu á föstudag.
Frá aðgerðum lögreglu á föstudag. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Rétt fyrir hádegi á laugardag barst tilkynning frá lögreglu þar sem kom fram að lögregla á höfuðborgarsvæðinu væri með tvo í haldi vegna aðgerðanna kvöldið áður, karl og konu. Sagði einnig að maðurinn væri annar þeirra sem grunaður væri um að hafa staðið að skotárásinni.

Klukkan tvö á laugardag barst enn og aftur tilkynning frá lögreglu en þar kom fram að bíllinn hefði fundist í Breiðholti. Hafði lögregla náð sambandi við þá sem voru í bílnum og slösuðust þeir ekki þegar skotið var á bílinn.

Klukkan rúmlega fimm á laugardag barst tilkynning frá lögreglu um að maðurinn sem handtekinn var fyrr um daginn hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Konan var aftur á móti látin laus.

Lögregla sendi síðan frá sér tilkynningu fyrir hádegi á mánudag þar sem kom fram að hinn maðurinn hefði verið handtekinn þann morguninn. Maðurinn fannst á höfuðborgarsvæðinu en hann gaf sig ekki fram sjálfur.

Síðdegis á mánudag barst önnur tilkynning frá lögreglu þar sem kom fram að hinn maðurinn hefði einnig verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Það rennur út á föstudaginn, 12. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert