Kennarasamband Íslands metur áform um að stytta námsaðstoð úr átta árum í sjö orka tvímælis sem og að námsaðstoð verði skert frá og með 50 ára aldri og felld niður til einstaklinga sem eru orðnir 60 ára.
Þetta kemur fram í umsögn KÍ við nýtt frumvarp til laga, LÍN-frumvarpið svonefnda. Telur KÍ þó ýmislegt í frumvarpinu vera til bóta, s.s. beinu námstyrkina „sem munu án efa koma námsmönnum til góða, og þeir eru í samræmi við fyrirkomulag á hinum Norðurlöndunum,“ segir í umsögn Kennarasambandsins. Eins kemur fram í umsögninni að hækkun framfærsluviðmiðs í 100 prósent sé í þágu hagsmuna námsmanna.
KÍ gagnrýnir að námsmönnum sé gert að greiða upp lán fyrir 67 ára aldur, að hætt verði að tekjutengja endurgreiðslur, að vextir verði hækkaðir á námslánum og að þeir beri vexti frá lántökudegi. „Að þessu leyti virðist sem meiri áhersla sé lögð á að tryggja hagsmuni LÍN gagnvart námsmönnum heldur en að skapa tækifæri til náms án tillits til efnahags,“ segir í umsögn Kennarasambandsins.