Mun færri koma í söluturninn

Mun færri hafa lagt leið sína í söluturninn í Iðufelli síðustu daga en vikurnar á undan. Annar eigenda hans segir að íbúar í hverfinu séu varir um sig eftir skotárásina sem gerð var fyrir framan húsnæðið á föstudagskvöld.

Viðskiptavinir stoppi skemur en áður og þá vilji foreldrar síður senda börn sín þangað ein. Hjónin sem eiga söluturninn keyptu reksturinn fyrir einum og hálfum mánuði.

Söluturninn er í verslunarhúsnæði í Iðufelli 14 en í húsinu er einnig að finna nytjamarkað á vegum Fjölskylduhjálpar Íslands. Umhverfis söluturninn er leikskóli og nokkur fjölbýlishús. Þá er íþróttasvæði Leiknis skammt frá.

Karl­menn­irn­ir tveir sem sæta gæslu­v­arðhaldi í tengsl­um við rann­sókn lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu á skotárásinni eru 28 ára og 29 ára, eða fædd­ir árin 1988 og 1987. Þeir eru báðir ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar en af er­lendu bergi brotn­ir. Menn­irn­ir hafa báðir komið við sögu hjá lög­reglu áður.

Frétt mbl.is: Annar maðurinn 28 ára, hinn 29 ára

Blaðamaður mbl.is leit við í söluturninum skömmu eftir hádegi í dag og ræddi við annan eiganda hans, konu á miðjum aldri. Eigendurnir eru hjón frá Nepal sem hafa búið hér um nokkurt skeið.

Konan lýsir atburðarás föstudagskvöldsins fyrir blaðamanni og er greinilega töluvert niðri fyrir. Hún var ásamt eiginmanni sínum við störf og hafði samband við lögreglu vegna slagsmála fyrir utan söluturninn snemma kvölds.

Lögregla kom á vettvang, ræddi við þá sem tókust á en fór skömmu síðar. Aftur kom til átaka og fylgdu byssuskot í kjölfarið. Hún hafði aftur samband við lögregluna og bað um aðstoð. Aðspurð segist hún ekki hafa séð skotvopn en hún hafi aftur á móti séð að priki af einhverju tagi hafi verið beitt í átökunum.

Frá aðgerðum lögreglu á föstudag.
Frá aðgerðum lögreglu á föstudag. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Eigandinn lýsir fyrir blaðamanni að henni þyki óþægilegt að vera ein í söluturninum eftir atburði föstudagsins. Hún gagnrýnir lögreglu fyrir að vera lengi á vettvang og segir lögreglumenn hafa farið of fljótt að hennar mati. Telur hún að hægt hefði verið að koma í veg fyrir frekari átök ef lögregla hefði staldrað lengur við. 

Hún segir að það sé alveg ljóst að atburðir föstudagskvöldsins hafi komið niður á rekstrinum. Í söluturninum eru nokkrir spilakassar þar sem viðskiptavinir standa oft lengi og spila. Minna hafi verið um það síðustu daga.

Blaðamaður mbl.is ræddi einnig við starfsmann Fjölskylduhjálpar Íslands vegna málsins. Sagðist hann ekki hafa orðið var við að skjólstæðingar og viðskiptavinir veigruðu sér við að koma í Iðufell eftir árásina.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert