Von er á átta manna sýrlenskri flóttamannafjölskyldu til landsins nú í ágúst. Að sögn Árdísar Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, stóð til að þessi fjölskylda kæmi til landsins með hópnum sem kom til landsins í apríl, en för hennar var frestað.
„Konan var ólétt í vor og þau eru með ungbarn með sér núna, þannig að það er möguleg ástæða þess að för þeirra var frestað,“ segir Árdís. „Nýjustu fréttir herma að fjölskyldan komi til okkar nú í ágúst en vera má að koma hennar dragist eitthvað fram í september. Við erum ekki komin með dagsetningu.“
Um er að ræða hjón með sex börn og eru fimm þeirra á grunnskólaaldri og svo eitt ungabarn. Hafnarfjarðarbær auglýsti nú í sumar eftir að taka húsnæði á leigu fyrir fjölskylduna og segir Árdís svör við auglýsingu bæjarins hafa verið nokkuð góð. A.m.k. fimm tilboð um íbúð bárust til bæjarins og er verið að vinna úr þeim þessa dagana.
Af þeim fjórum fjölskyldum sýrlenskra flóttamanna sem komu til landsins úr flóttamannabúðum í Líbanon í apríl settust þrjár þeirra, eða 11 einstaklingar, að í Hafnarfirði. Árdís segir fjölskyldunum hafa gengið vel að aðlagast samfélaginu þessa fjóra mánuði sem liðnir eru frá komu þeirra.
„Í þeim hópi sem kom síðast voru fjögur börn. Eitt ungabarn er enn heima hjá foreldrum sínum, eitt byrjaði í aðlögun og vistun á leikskóla strax í vor og því barni líkar mjög vel á sínum leikskóla,“ segir Árdís. Þá hófu tvö börn grunnskólagöngu fljótt eftir komuna til landsins og fóru þau bæði í Öldutúnsskóla þar sem einn og sami kennarinn hefur með mál beggja barnanna að gera og sér um að allir hlutir gangi vel fyrir sig. Hún nefnir að sérstakur starfsmaður hafi líka verið ráðinn í að veita börnunum arabískan stuðning í skólanum.
„Eldra barnið, sem er drengur, er síðan að fara í Tækniskólann núna í haust og hann er að eigin sögn mjög spenntur fyrir að byrja þar.“
„Vormánuðir og sumar hafa farið í að bjóða þau velkomin og leyfa þeim að fá tilfinningu fyrir samfélaginu og hvernig allt virkar hér hjá okkur,“ segir Árdís.
Hópurinn í heild sinni hefur sótt íslenskukennslu fjóra daga vikunnar, fjóra tíma í senn, allt frá komunni til landsins. Hlé var þó tekið á kennslunni yfir hásumarið, en hún hefst á ný nú í ágúst. Árdís segir um samstarfsverkefni við Kópavogsbæ að ræða, en hafnfirsku fjölskyldurnar og þær sem settust að í Kópavoginum hafa hist í Menntasetrinu við lækinn. Þar hafa þau fengið samfélagsfræðslu og fleira tengt íslenskukennslunni í samstarfi við Rauða krossinn.
„Áhersla hefur verið lögð á að einstaklingarnir fái að sem mestu leyti fræðslu frá fagaðilunum sjálfum. Til stendur að setja upp vettvangsferðir með haustinu á ákveðna staði, t.d. til ríkisskattstjóra. Markmiðið með þessu er að auka sjálfstæði einstaklinganna og gera þá sjálfbjarga og óhrædda við að afla sér upplýsinga og sækja þjónustu á eigin spýtur.“