Íslendingar draga sig úr spítalaverkefni

Henri Middeldorp (t.h.) ásamt hjarta­lækn­in­um Pedro Brugada en rekst­ur spít­al­ans …
Henri Middeldorp (t.h.) ásamt hjarta­lækn­in­um Pedro Brugada en rekst­ur spít­al­ans á að vera í sam­starfi við hann.

Gunnar Ármannsson lögfræðingur, sem hefur verið í forsvari fyrir félagið MCPB ehf. sem ætlar að reisa einkarekinn spítala og hótel í Mosfellsbæ, hefur sagt sig frá verkefninu ásamt Unnari Steini Hjaltasyni sem er forstjóri VHE vélaverkstæðis. Segir hann ástæðuna vera ágreining við hollenska fjárfestinn Henri Middeldorp um að birta strax upplýsingar um þá fjárfesta sem standa á bak við verkefnið. Þetta staðfestir Gunnar í samtali við mbl.is, en sagt var frá málinu í hádegisfréttum RÚV.

Gunnar og félagið VHE ehf. áttu 1% hlut í verkefninu hvor.

„Staðreyndin er sú að umfjöllunin sem fór af stað um daginn varð neikvæð mjög fljótt,“ segir Gunnar, en málið hefur valdið mikilli umfjöllun í fjölmiðlum og hjá stjórnmálamönnum þar sem meðal annars hefur verið rætt um hvort og hvernig einkarekstur eigi að vera í heilbrigðiskerfinu og áhrif af slíkum spítala á mönnun heilbrigðisstarfsfólks á ríkisreknum spítölum.

Gunnar segir að Middledorp hafi viljað bíða með að upplýsa um fjárfesta verkefnisins þangað til sótt yrði um ívilnanir fyrir verkefninu til ríkisins. Samkvæmt lögum er þá nauðsynlegt að greina frá fjárfestum. „Okkur fannst rétt að upplýsa það strax og eyða röddum um hvaðan peningarnir kæmu,“ segir Gunnar.

Staðfestir Gunnar að hann og Unnar hafi ekki vitað hvaðan fjármagn fyrir verkefnið kæmi en höfðu talið það nægjanlega staðfestingu að slíkt kæmi fram með ívilnanabeiðninni. Eftir umræðu undanfarinna vikna hafi það aftur á móti verið skilyrði þeirra að fara þessa leið og upplýsa um fjárfestinguna strax.

Gunnar segir að umræðan sem hafi komið upp í tengslum við málið sé af hinu góða og að hann óski þess að hún væri alltaf í gangi, „en ekki að menn hlaupi upp til handa og fóta þegar svona mál koma upp og gleymi þeim síðan.“ Segist hann áfram þeirrar skoðunar að aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu muni vera eitt af því sem bjargi kerfinu en eyði því ekki, líkt og haldið hafi verið fram í umræðu um málið.

Gunnar Ármannsson lögmaður.
Gunnar Ármannsson lögmaður.

Bendir Gunnar á að hann hafi sjálfur þurft að nota heilbrigðiskerfið talsvert árið 2006 og síðan þá hafi það versnað. Mönnunarvandinn sé meiri og það sé eins og „stjórnvöld ætli að treysta á guð og lukkuna.“

Gunnar segist í augnablikinu ekki vera að vinna að öðrum viðlíka málum, en að síðan umræðan kom upp hafi fjöldi einstaklinga sem tengist þessum vettvangi rætt við sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka