Lárus gefur kost á sér í 2. sætið

Lárus Sigurður Lárusson.
Lárus Sigurður Lárusson. Ljósmynd/Aðsend

Lárus Sigurður Lárusson héraðsdómslögmaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sætið í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík norður fyrir alþingiskosningar í haust.

Lárus Sigurður starfar sem héraðsdómslögmaður en áður starfaði hann lengi hjá Samkeppniseftirlitinu og þar áður hjá Persónuvernd. Hann hefur tekið þátt í hinum ýmsu félagsstörfum og gegnt trúnaðarstörfum bæði innan Framsóknarflokksins sem og á fleiri sviðum, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Ég tel afar brýnt að þeirri uppbyggingu sem staðið hefur yfir að undanförnu á sviði efnahagsmála verði haldi áfram undir styrkri stjórn Framsóknarflokksins og sá mikli efnahagslegi árangur verði nýttur til uppbyggingar í samfélaginu,“ segir Lárus Sigurður í tilkynningunni.

Hann bætir við að uppbygging velferðarmála sé í forgangi hjá sér ásamt áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og bættum hag öryrkja og eldri borgara.

Hann segir að einnig sé brýnt að styrkja atvinnulífið með nýsköpun og samkeppni að leiðarljósi. „Það er mikilvægt að á Íslandi sé heilbrigt og öflugt atvinnulíf. Við ættum að stuðla að opnun markaða með breytingum á opinberum aðgangshindrunum og vinna gegn fákeppni. Heilbrigð samkeppni stuðlar að auknum hag neytenda og ég vil beita mér fyrir aukinni neytendavernd og skýrari réttindum neytenda. Á sama tíma er mjög brýnt að við Framsóknarmenn höldum áfram að sýna aðhald og ráðdeild í ríkisrekstrinum,“ segir Lárus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert