„Við ákváðum fjögur að mynda sveit og hlaupum til minningar um Harald Pál Bjarkason sem var vinnufélagi okkar og lést fyrir aldur fram úr hjartaáfalli,“ segir hlaupagarpurinn Sigmundur Stefánsson í samtali við mbl.is. Boðsveitin Jötunn ætlar að hlaupa 42 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til minningar um látinn vinnufélaga.
„Þetta kom bara til í vor að við fórum að ræða þetta,“ segir Sigmundur sem hleypur ásamt þeim Júlíu Gunnarsdóttur, Össuri Björnssyni og Geir Guðjónssyni sem öll eru starfsmenn Jötuns véla. „Það náttúrlega var strax tekið vel í það og menn voru virkilega spenntir fyrir því,“ segir Sigmundur en þrjú þeirra störfuðu með Haraldi hjá Jötni vélum á Selfossi en sá þriðji í Reykjavík.
Haraldur féll frá í fyrra og segir Sigmundur hans vera sárt saknað. „Þetta var frábær vinnufélagi, hann var sölumaður hérna og var frábær félagi,“ segir Sigmundur um Harald sem var mikill karakter á vinnustaðnum.
Hópurinn hefur að undanförnu æft undir styrkri stjórn Sigmundar en í textalýsingu fyrir boðsveit Jötuns á heimasíðu Hlaupastyrks segir að hann sé „þrautreyndur hlaupagarpur og þindarlaus í þokkabót.“
„Ég er nú gamall hlaupahundur,“ segir Sigmundur en hann segir æfingar hópsins, sem samanstendur af reyndum hlaupurum og nýliðum í bland, ganga vel. Sjálfur hefur Sigmundur ekki tölu á því hversu oft hann hefur tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni en hann hefur hlaupið þar allar vegalengdir sem eru í boði. Þetta verður þó í fyrsta sinn sem hann hleypur boðhlaup.
Sveitin ætlar í minningu Haraldar að hlaupa til styrktar Hjartaheilla, samtaka sem beita sér fyrir fræðslu og forvörnum vegna hjartasjúkdóma, veita aðstoð og ráðgjöf og standa fyrir umbótum í þágu hjartasjúklinga.
„Það er svolítið skemmtileg tilviljun að hlaupa fyrir Hjartaheill,“ segir Sigmundur en sjálfur fékk hann hjartaáfall þegar hann var að byrja sinn hlaupaferil, þá 47 ára gamall. „Þá var mér sagt af mínum lækni að ég skyldi nú bara fara rólega, ég færi ekkert maraþon,“ segir Sigmundur, „en síðan þá er ég búinn að fara 25 maraþon og þrjá járnkarla.“
Spurður hvort eitthvert hlaupanna 25 sé eftirminnilegra en annað segir Sigmundur að líklega standi hlaupið á Kínamúrinn upp úr. „Það er nú eitt af toppunum hjá mér,“ segir Sigmundur en nokkuð mörg ár eru síðan hann hljóp heilt maraþon á Kínamúrnum.
Sigmundur segir hreyfinguna vera af hinu góða, ekki síður fyrir líffæri eins og hjartað. Aðalmarkmið hópsins er að njóta hlaupsins og í leiðinni hvetja fólk til að styrkja málefnið frekar en að keppa við tímann. „Þetta verða nú engin læti í okkur, heldur er þetta bara fyrst og fremst að njóta,“ segir Sigmundur sem segir sveitina spennta fyrir hlaupinu. „Við hlökkum bara til að takast á við þetta.“
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 20. ágúst næstkomandi. Hægt er að heita á boðsveitina Jötun í gegnum heimasíðu Hlaupastyrks.