„Lögreglumenn eru reiðir yfir því að líf þeirra skuli vera metið með þessum hætti, það virðist engu máli skipta þó að verið sé að ráðast á þá, stinga og hóta lífláti,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við mbl.is.
Að hans sögn ríkir mikil óánægja meðal lögreglumanna með þá ákvörðun héraðssaksóknara að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir manni sem króaði sérsveitarmann af fyrr í vikunni, reyndi ítrekað að stinga hann með hnífi og hótaði honum lífláti.
Líkt og mbl.is greindi frá í gær er héraðssaksóknari með málið til rannsóknar. Tveir sérsveitarmenn fóru í útkall í íbúðarhús á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudagskvöld. Voru þeir næstir húsinu af þeim lögreglumönnum sem voru á vakt og sinntu þeir því útkallinu.
Þeir knýja dyra og tekur maður á móti þeim vopnaður hnífi. Tekst manninum að læsa annan sérsveitarmanninn úti og reynir ítrekað að stinga sérsveitarmanninn sem er inni í íbúðinni. Hótaði maðurinn honum jafnframt lífláti.
Hvernig tókst lögreglumanninum að leysa úr þessu?
„Með mikilli þjálfun, reynslu og þekkingu á lögreglustarfinu. Með réttum varnarbúnaði á þeim tíma sem hann er þarna, með hlífðarskildi og kylfu,“ segir Snorri.
„Hin hliðin á málinu er sú að lögreglumenn eru algjörlega arfavitlausir og æfir yfir eftirmála málsins, að einstaklingur sem réðst að lögreglumanni með svona grófu ofbeldi, sem er í raun bara morðtilraun og morðhótun, skuli síðan bara ganga laus,“ segir Snorri. „Lögreglumenn eru reiðir yfir því að líf þeirra skuli vera metið með þessum hætti, það virðist engu máli skipta þó að verið sé að ráðast á þá, stinga og hóta lífláti.
Þar sem um er að ræða brot gegn valdstjórninni hefur héraðssaksóknari málið til rannsóknar, nánar tiltekið 106. grein almennra hegningarlaga. Refsiramminn fyrir brot af þessu tagi, sem beinast að opinberum starfsmanni sem hefur heimild til valdbeitingar er átta ár.
Snorri segir að hins vegar megi vænta þyngri fangelsisdóma vegna brota þar sem reynt er að lífláta fólk. „Og að viðkomandi skuli ekki vera settur í gæsluvarðhald vegna svona máls er held ég bara fáheyrt í rannsóknarsögu lögreglu.“
Hvernig heldur þú að þarna hefði farið ef um almennan lögreglumann hefði verið að ræða sem hefur ekki sama búnað og þjálfun og sérsveitarmaður?
„Ég þori nú eiginlega ekki að hugsa þá hugsun til enda, satt best að segja,“ segir Snorri og bætir við að sérsveitarmaður fái til að mynda mun ítarlegri og meiri þjálfun bæði í valdbeitingu og varnartökum.
Frétt mbl.is: Rannsaka árás á sérsveitarmann