Bannar búrkíní á baðströndum

Frá Cannes.
Frá Cannes. Ljósmynd/Wikipedia

Borgarstjóri Cannes í Frakklandi hefur lagt bann við því konur klæðist svonefndum búrkíníum á baðströndum borgarinnar.

Búrkíní er sérstakur sundfatnaður, sem hylur allan líkamann, og múslimskar konur hafa klæðst.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að borgarstjórinn, David Lisnard, hafi haldið því fram að fatnaðurinn sé „táknmynd fyrir íslamska öfgastefnu“ og gæti leitt til átaka.

Ákvörðunin hafi verið tek­in til að halda frið og spekt á meðal almennra borgara.

Þær konur sem klæðast búrkíníum eiga nú yfir höfði sér fjársekt upp á 38 evrur, sem nemur um fimm þúsund krónum.

Strandverðir munu þó fyrst biðja þær um að skipta um sundföt eða yfirgefa ströndina.

Bannið tók gildi í lok júlímánaðar, en því hefur enn ekki verið beitt.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Frakkar banna klæðnað en árið 2011 varð Frakkland fyrsta landið í Evrópu til þess að meina konum að hylja andlit sitt að öllu leyti á almannafæri.

Fyrr í vikunni tilkynntu síðan forsvarsmenn vatnaskemmtigarðs í nágrenni borgarinnar Marseille í Frakklandi að sérstökum búrkíní-degi, sem halda átti 10. september, hefði verið aflýst.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert