„Maður ætlar aldrei að fá átröskun“

Dóra Júlía Agnarsdóttir.
Dóra Júlía Agnarsdóttir. Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrks

Þegar Dóra Júlía Agnarsdóttir var um tvítugt greindist hún með átröskun. Dóra Júlía ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Hugrúnu, geðfræðslufélagi sem stofnað var af hópi háskólanema í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði sem telur þörf á aukinni umræðu um geðheilsu, einkum meðal ungs fólks.

„Ég var mjög veik í einhver ár og líka sem unglingur,“ segir Dóra Júlía í samtali við mbl.is en það eru meðal annars nokkrar vinkonur hennar sem stóðu að stofnun Hugrúnar fyrr á þessu ári.  Markmið félagsins er að veita ungu fólki fræðslu um geðheilsu og helstu geðraskanir, ræða hvenær þörf er á að leita aðstoðar sem og hvar aðstoð er að finna og verður fræðslan meðal annars í formi heimsókna í framhaldsskóla.

„Maður ætlar aldrei að fá átröskun“

„Þetta er bæði ótrúlega hjálplegt fyrir fólk sem kemur til með að veikjast eða er veikt,“ segir Dóra Júlía sem kveðst fullviss um að fræðsla sem þessi hefði hjálpað sér mikið að skilja eigin veikindi og ekki síður fyrir aðra að skilja hana.

Mynd/Facebook

„Það voru margir sem voru pirraðir og sárir út í mig þegar ég var með búlimíu og svona en kannski áttuðu sig ekkert á því að þetta væri sjúkdómur en ekki bara ég,“ segir Dóra Júlía. „Maður ætlar aldrei að fá átröskun, það bara gerist svo áttar maður sig kannski á því miklu seinna hvað er í gangi,“ segir Dóra Júlía.

Þar fyrir utan hefur Dóra Júlía, líkt og eflaust flestir aðrir, átt vini og vinkonur sem hafa glímt við alls konar geðræn vandamál á borð við þunglyndi og kvíða. „Maður kannski bara vissi að það væri eitthvað að en kannski skildi ekkert og vissi ekki hvernig maður ætti að bregðast við eða hvað væri í gangi,“ segir Dóra Júlía.

Fordómar byggjast á fáfræði

Hún telur því miður algengt að umburðarlyndi skorti gagnvart einstaklingum sem glíma við geðsjúkdóma en þar sé fyrst og fremst þekkingarskorti um að kenna. „Fordómar eru náttúrlega bara ekkert annað en fáfræði þannig að með aukinni fræðslu þá er alltaf hægt að minnka fordóma.“

Sjálf segist hún ekki hafa fundið fyrir fordómum vegna veikinda sinna heldur hafi hún fundið fyrir miklum stuðningi. „Það voru ótrúlega margir sem stóðu við bakið á mér,“ segir Dóra Júlía en í kjölfar þess að hún greindi frá veikindum sínum segir hún að fleiri hafi stigið fram. „Ég held bara að fólk í kringum mig hafi kannski bara ekki skilið og fundist þetta erfitt og leiðinlegt og ekkert vitað hvernig það ætti að bregðast við.“

Aldrei hlaupið 10 kílómetra

Dóra Júlía hefur alltaf verið dugleg að hreyfa sig og …
Dóra Júlía hefur alltaf verið dugleg að hreyfa sig og stunda útivist þó hún hafi ekki enn hlaupið 10 kílómetra. Mynd/Facebook

Þetta verður í fyrsta sinn sem Dóra Júlía tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoni og segir hún undirbúning fyrir hlaupið ganga vel. „Ég hef samt aldrei hlaupið 10 km áður þannig við sjáum bara hvernig það gengur.“

Hún er þó nokkuð vön að hlaupa styttri vegalengdir og er dugleg að hreyfa sig og starfar til að mynda sem danskennari. „Þannig að ég hlakka bara til að takast á við þetta.“ Markmiðið er að klára hlaupið á innan við klukkustund og vonast Dóra í leiðinni til þess að vekja athygli á starfsemi Hugrúnar. 

Gerir sitt besta á hverjum degi

„Það er mikilvægt fyrir alla að vera samkvæmir sjálfum sér og trúa á sig og bara átta sig á því að maður verður að koma vel fram við sig og hugsa um það sem skiptir í alvörunni máli,“ segir Dóra Júlía, spurð hvort hún hafi einhver ráð fyrir ungt fólk sem glímir við átröskun og er undir þrýstingi útlitsdýrkunar í samfélaginu. „Þetta skiptir ekki máli, það sem skiptir máli er bara að vera heilbrigður og hamingjusamur og trúa á sig og ekki láta neitt takmarka sig.“

„Geðræn veikindi eru eitthvað sem ég hafði enga þekkingu á þegar ég var í grunnskóla og menntaskóla. Þegar ég veiktist af átröskun skildi ég lítið sem ekkert hvað var að gerast hjá mér og hversu skaðleg ég væri sjálfri mér,“ segir Dóra Júlía. „Þá loksins hafði ég hugrekki til þess að standa með sjálfri mér og leggja mig alla fram til þess að ná bata.“ 

Það var ekki fyrr en hún hóf meðferð við sjúkdómnum sem vitneskja hennar jókst til muna og í dag á hún í heilbrigðu sambandi við mat og hefur tekist að sigrast á veikindunum með því að gera sitt besta á hverjum degi. 

„Þannig verður skilningurinn svo miklu meiri sem og umburðarlyndið og vonandi auðveldar það fólki að leita sér hjálpar, sem er svo gífurlega mikilvægt. Það eiga allir að geta verið besta útgáfan að sjálfum sér. Þess vegna hleyp ég fyrir Hugrúnu, burt frá skömminni og fyrir hönd allra þeirra sem þurfa á því að halda,“ segir Dóra Júlía sem hlakkar til að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu.

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Dóru Júlíu í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka