Björgunarsveitir eru á leiðinni til móts við tvo franska ferðamenn sem eru staddir á Fimmvörðuhálsi. Þeir voru að labba upp að gígunum Magna og Móða þegar þeir hringdu í Neyðarlínuna.
Að sögn Ágústs Leós Sigurðssonar, hjá svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurlandi, er um að ræða konur á þrítugsaldri. „Þær voru orðnar það kaldar og hraktar að þær treystu sér ekki lengur á göngu. Þær eru búnir að koma sér fyrir í tjaldi og björgunarsveitir eru að fikra sig að þeim.“
Konurnar leituðu eftir aðstoð um hálftólfleytið í dag og segir Ágúst að um 25 björgunarsveitarmenn séu að leita að þeim.
Súld er á Fimmvörðuhálsi og töluverð vindkæling.
Ágúst telur að konurnar hafi ekki notast við vefsíðuna Safe Travel sem er á vegum Landsbjargar og tryggingafélaga þar sem ferðamenn láta vita af ferðum sínum um landið.
Tvær konur lentu einnig í honum kröppum á Fimmvörðuhálsi í gær. Þeim var báðum komið til bjargar.
Frétt mbl.is: Í vanda staddar á Fimmvörðuhálsi