„Hún réðst á gamlan mann, rændi af honum skilti og braut það,“ segir Sveinn Gestur Tryggvason sem vísar því alfarið á bug að hann hafi haft í hótunum við unga konu á Austurvelli þar sem mótmælt var fyrir framan þinghúsið í dag.
Sveinn vísar til fréttar sem birtist á mbl.is síðdegis þar sem haft var eftir Vigdísi Ósk Howser Harðardóttur að hann hefði haft í hótunum við hana eftir að hún hafði tekið skilti af eldri manni og brotið það. Sveinn segir þetta rangt. Hann hafi aðeins átt leið fram hjá Austurvelli þegar hann varð vitni að þessari atburðarás.
Eldri maðurinn var með Íslensku þjóðfylkingunni sem kom saman til að mótmæla nýjum útlendingalögum. Vigdís var á meðal hóps fólks sem hélt samstöðufund með flóttamönnum á sama tíma, en samtökin No Borders komu að því að skipuleggja samstöðufundinn.
„Það er óþægilegt að standa einn á móti öllum,“ segir Sveinn sem bætir við að honum hafi blöskrað að sjá það ofbeldi sem maðurinn hafi orðið fyrir. Það sé ekki lagi að rífa hluti af gömlu fólki. Í þessu tilviki hafi hann einfaldlega ætlað að standa með þeim sem minna mega sín. Hann sé mjög ósáttur við að hann hafi verið gerður að fúlmenni í umræddri frétt, sem byggi á misskilningi. Sveinn kveðst ekki hafa verið sáttur við að þarna hafi hópur verið að hefta tjáningarfrelsi mannsins.
Sveinn segir ennfremur að félagar Vigdísar í No Borders, sem stóð fyrir samstöðufundinum, hafi myndað atvikið og þau hafi reynt að espa hann upp, m.a. með því að klípa í hann, traðka á honum og hrópa að sér ókvæðisorð. Sveinn segist hafa hringt í lögreglu til að óska eftir aðstoð þar sem menn hafi ekki getað rætt málin.
„Ég er enn í hálfgerðu áfalli,“ segir Sveinn að lokum en hann kveðst ekki vita hvernig mál eldri mannsins hafi endað.
Uppfært: Vigdís Ósk Howser Harðardóttir vísar því alfarið á bug að hún hafi ráðist á gamla manninn. Það sé heldur ekki rétt að hún hafi ekki orðið fyrir hótunum frá Sveini. Vitni séu að því og upptökur sem sýni fram á það. Vigdís segir ennfremur að hún telji að umfjallanir um mótmælin í gær ættu fremur að snúast um málefnið sjálft, það er stöðu flóttafólks og hælislietenda.