„Hingað eru flóttamenn velkomnir“

Fólk úr samstöðuhópi með flóttafólki og hælisleitendum á Austurvelli í …
Fólk úr samstöðuhópi með flóttafólki og hælisleitendum á Austurvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög ánægð með þetta. Það var lítill fyrirvari en ég er mjög ánægð með að sjá hversu margt fólk er mætt,” sagði Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og einn af skipuleggjendum samstöðufundar með flóttafólki og hælisleitendum sem fór fram á Austurvelli í dag. 

„Þetta er augljóst dæmi um að við erum flest öll sammála um að við viljum byggja hér opið og réttlátt samfélag sem einkennist af umburðarlyndi, réttlæti og jöfnuði fyrir alla, óháð uppruna, trú, menningu eða stöðu fólks í samfélaginu,” sagði hún, en á sama tíma fóru fram mótmæli Íslensku þjóðfylkingarinnar gegn nýjum útlendingalögum.

Frétt mbl.is: Braut skilti hjá mótmælanda

„Við, íslensk stjórnvöld og Íslendingar, eigum að gangast við okkar skyldum. Okkur ber siðferðisleg skylda til að aðstoða fólk í neyð. Við erum að horfa upp á ástand sem við höfum aldrei séð áður. Það hafa aldrei verið fleiri á flótta í heiminum í dag, mikið af konum og börnum,” bætti hún við.

Liðsmenn Íslensku þjóðfylkingarinnar á Austurvelli.
Liðsmenn Íslensku þjóðfylkingarinnar á Austurvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum hér til að sýna að hingað eru flóttamenn velkomnir og við munum taka vel á móti þeim. Þetta er ekki mál einstakra ríkja eða einstaklinga, það snertir okkur öll og við eigum að halda áfram að sýna það að okkur stendur ekki á sama. Við erum öll fyrst og fremst fólk og eigum öll skilið sömu virðingu, sama réttlæti, sömu mannlegu reisnina. Hér erum við öll sammála um það, þetta eru okkar gildi, ekki einhver önnur óhuggulegri,” sagði Sema.

Frétt mbl.is: Ólíkar fylkingar á Austurvelli

Um mótmæli Íslensku þjóðfylkingarinnar á Austurvelli hafði hún þetta að segja: „Þetta er þróun sem við höfum verið að horfa upp á, hér alveg eins og í Evrópu og víðar, að það eru öfgaöfl þjóðernishyggju og fordóma og haturs sem eru að vaxa og Ísland er engin undantekning þar á. Þetta er dæmi um að við munum bregðast við slíku. Við samþykkjum það ekki að fólk komi saman til þess að mótmæla öðru fólki, það er ekkert í boði.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert