Íslandslán, algengasta lánaformið hér á landi undanfarin ár, verða að meginreglu til bönnuð ef frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Frumvarpið verður lagt fram á þingi í vikunni.
Ríkisstjórnin hyggst ekki afnema verðtrygginguna, líkt og framsóknarmenn lofuðu fyrir síðustu þingkosningar, heldur snúast áform hennar um að draga úr vægi hennar og takmarka Íslandslánin, sem eru verðtryggð jafngreiðslulán til fjörutíu ára.
Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem á var minnst á blaðamannafundi forsætisráðherra og fjármálaráðherra í Hörpu fyrr í dag, verður almenna reglan sú að ekki verður heimilt að taka verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára. Undanþágur frá því verða veittar ungu fólki, tekjulágum og þeim sem taka lán með lágu veðsetningarhlutfalli.
Frétt mbl.is: Íslandslán verða takmörkuð
Tillagan byggir á niðurstöðu meirihluta sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum sem ríkisstjórnin skipaði sumarið 2013.
Meirihlutinn lagði til að Íslandslánin yrðu bönnuð. Þess í stað yrði hámarkstími þeirra 25 ár. Ekki er hins vegar lagt til að verðtryggingin yrði afnumin með öllu.
Í máli nefndarmanna sérfræðingahópsins á blaðamannafundi, þar sem skýrsla hans var kynnt, kom fram að sambland af jafngreiðslum og löngum lánstíma væri versta birtingarmynd verðtryggingar á Íslandi. Talaði Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur hjá Gamma Capital Management, um „eitraðan kokkteil“ í því sambandi.
Að mati hópsins veldur greiðsluferill Íslandslánanna hættu á yfirveðsetningu á fyrri hluta lánstímans og eykur heildarvaxtakostnað yfir lánstímann þar sem verðbótum er velt yfir á höfuðstólinn. Ágerist þessi ókostur lánanna eftir því sem lánstíminn er lengri.
Verðtryggingin hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár. Engar hömlur hafa verið settar á hana frá árinu 1998, en þær breytingar sem ríkisstjórnin leggur til yrðu því fyrstu takmarkanir á notkun verðtryggingar í langan tíma.
Þess má þó geta að Vilhjálmur Bjarnason, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skilaði séráliti í nefndinni. Hann vildi ganga mun lengra og afnema verðtrygginguna með öllu strax 1. júlí 2014. Sagði hann að hlutverk sérfræðingahópsins hefði verið að finna út hvernig ætti að afnema verðtrygginguna, en ekki hvort það væri hægt. Tillaga meirihlutans fæli það hins vegar ekki í sér.
Margir framsóknarmenn hafa talað á svipuðum nótum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, sagði til að mynda fyrir kosningar að einfalt mál væri að afnema verðtrygginguna.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður flokksins, sagðist í útvarpsviðtali í síðasta mánuði óska þess að frumvarp um afnám verðtryggingar yrði lagt fram nú þegar þing kæmi saman. Sjálfstæðisflokkurinn hefði þvælst fyrir málinu en nú þyrfti hins vegar að láta á það reyna.
Vilji sjálfstæðismanna hefur ekki staðið til þess að banna verðtrygginguna og má sem dæmi benda á að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur talað á nokkuð svipuðum nótum og meirihluti sérfræðingahópsins. Engin ástæða sé til þess að banna verðtryggð lán en þó sé mikilvægt að draga úr vægi lengstu lánanna. Valfrelsi sé lykilatriðið.
Fram hefur komið í máli Bjarna að um 40% þeirra sem taki Íslandslán myndu ekki standast greiðslumat fyrir styttri lán. Byggir það á útreikningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hann sagði á þingi í vetur að ef Íslandslánin yrðu afnumin gæti þurft að auka stuðninginn við þennan hóp með einhverjum hætti.
Þess má þó geta að samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar stendur ekki til að banna Íslandslánin að öllu leyti, heldur verða undanþágur veittar ungu fólki, tekjulágum og þeim sem taka lán með lágu veðsetningarhlutfalli.