Haglabyssa, sem talið er að hafi verið notuð í skotárás í Fellahverfi í Breiðholti fyrr í þessum mánuði, fannst í íþróttatösku sem komið hafði verið fyrir í ruslagreymslu fjölbýlishúss. Lögregla fékk ábendingu um málið. Þetta kemur fram í greinargerð aðstoðarsaksóknara vegna skotárásarinnar en skotið var af afsagaðri haglabyssu meðal annars á rauða bifreið.
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald til 9. september yfir tveimur karlmönnum sem grunaðir eru um að hafa staðið fyrir skotárásinni. Fjallað er um greinargerðina í úrskurði héraðsdóms. Mennirnir tveir eru bræður.
Fram kemur enn fremur í greinargerðinni að áður en tilkynning barst um íþróttatöskuna hefði vitni sagst hafa séð karlmann, sem kom heim og saman við lýsingu á öðrum manninum, hlaupa í átt að húsinu þar sem móðir hans býr og farið þar inn. Lögreglan telji sig hafa fundið þar vopnið sem notað hafi verið í árásinni. Sjá hafi mátt blóðkám á byssunni.
Lögreglan hafði afskipti af mönnunum um klukkutíma áður en tilkynnt var um skotárásina vegna slagsmála. Mennirnir hafa viðurkennt að hafa skotið hvor sínu skotinu af haglabyssunni en segjast hafa gert það eftir að hafa afvopnað annan mann sem fyrst hafi skotið af henni.
Fram kemur í greinargerðinni að það sé mat lögreglu að háttsemi mannanna hafi stofnað lífi og heilsu fjölda fólks í hættu, en fjöldi fólks hafi verið á ferli og verið skotið af byssunni í íbúðabyggð. Þeir hafi enn fremur notað vopn til verksins sem átt hafi verið við þannig að það var hættulegra en ella fyrir vikið. Mönnunum hafi mátt vera það ljóst.