Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir rannsókn á máli manns sem réðst á sérsveitarmann í íbúðarhúsi í Reykjavík nú fyrr í mánuðinum ganga vel. Málið er rannsakað sem brot gegn valdstjórninni.
Mbl.is hefur áður greint frá því að samkvæmt heimildum fréttavefjarins hafi lögreglu á höfuðborgarsvæðinu borist beiðni um aðstoð þetta kvöld. Sérsveitarmaður á vakt var næstur húsinu af þeim lögreglumönnum sem voru við störf þetta kvöld og sinnti hann því útkallinu. Þegar hann kom á vettvang réðst maður vopnaður hnífi á hann og kom til átaka á milli þeirra.
„Það er búið að taka flestar skýrslur og rannsókninni miðar ágætlega,“ segir Ólafur Þór. Búið sé að tala við flesta sem málinu tengist, en beðið sé þó eftir stöku upplýsingum sem séu í ferli annars staðar.
Ólafur Þór gerir ráð fyrir að málið verði sent til saksóknara hjá embættinu á næstu vikum.
Reyndi ítrekað að stinga sérsveitarmann
Rannsaka árás á sérsveitarmann