Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Kristófer Már Maronsson, lýsir yfir stuðningi við lánasjóðsfrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem lagt verður fyrir Alþingi í dag. Í grein sem Kristófer Már ritar á vefnum Rómur.is segir hann frumvarpið vera framfaraskref fyrir háskólanemendur á Íslandi.
Kristófer Már gerir í grein sinni samanburð á núverandi kerfi og því sem lagt er til í frumvarpinu og bendir á að námsmenn hafi lengi talað fyrir því að taka eigi upp kerfi hér á landi sem svipar til annarra Norðurlanda, þar sem styrkur og lán séu aðskilin.
„Í fyrirliggjandi frumvarpi eru boðaðir 2,5% vextir auk 0,5% álags vegna affalla, sem þýðir að búið er að minnka styrkinn í láninu verulega, en eitthvað er þó eftir af honum,“ segir í grein Kristófers Más.
„Það er kannski ekki hægt að búa til fullkomið lánasjóðskerfi, en það er hægt að búa til betra lánasjóðskerfi. Kerfisbreytingarnar sem hafa verið boðaðar falla klárlega undir þá kröfu,“ segir Kristófer Már. Vissulega megi gera enn betur og Stúdentaráð hafi bent á ýmis atriði í því samhengi, m.a. að námsaðstoð verði greidd út mánaðarlega, lánað verði til lengra náms og ekki sett þak á námslán.
Hann klykkir síðan út með því að hann vonist til að „eitt helsta baráttumál stúdenta undanfarin ár verði ekki að einhverjum kosningaslag stjórnmálaflokka.“