Fjallahjólakeppnin Glacier 360° hefst á miðvikudaginn en keppnin er ein umfangsmesta keppni sinnar tegundar á Íslandi. 62 keppendur eru skráðir til leiks og eru á fjórða tug keppenda erlendir fjallahjólreiðagarpar sem leggja leið sína til Íslands fyrir keppnina.
Hjólaðir verða um 290 km á þremur dögum á íslensku hálendi. Keppnin hefst við Geysi, hjólað verður umhverfis Langjökull og er endamarkið við Gullfoss en keppendur gista á tveimur stöðum á leiðinni, í Húsafelli og á Hveravöllum.
Þótt fjölmennari fjallahjólakeppnir hafi verið haldnar hér á landi er umfang þessarar keppni talsvert meira en þekkist áður. „Þetta er rosalega stórt verkefni,“ segir Björk Kristjánsdóttir hjá Made in Mountains, sem á og heldur keppnina, í samtali við mbl.is. „Fólk í rauninni mætir bara þarna og lætur sjá um sig. Eina sem það hugsar um er að setjast á hjólið og bruna,“ segir Björk, en fyrirtækið sér um að ferja mat og vistir á áningarstaði og setur upp tjaldbúðir fyrir keppendur.
Tveir keppendur eru saman í liði og þurfa þeir að hjóla saman allan tímann, bæði til að hjálpast að og af öryggisástæðum. Keppnin er að erlendri fyrirmynd en viðburðir af þessu tagi njóta mikilla vinsælda erlendis.
Aðstandendur kynntu keppnina erlendis og var meðal annars fjallað um hana í sjö af stærstu veftímaritum fjallahjólreiða í heimi. „Það vakti náttúrulega áhuga margra og þess vegna er náttúrulega margt af þessu fólki að koma,“ segir Björk, en lögð var sérstök áhersla á að fá sterkar konur í keppnina.
Þeirra á meðal er Rebecca Rusch frá Bandaríkjunum en hún er einna þekktasta nafnið í greininni. Rusch er styrkt af orkudrykkjaframleiðandanum Red Bull og koma blaðamenn frá fyrirtækinu til Íslands, sérstaklega til að fylgja henni eftir í keppninni. Þá má nefna Yolandi du Toit frá Suður-Afríku sem keppir fyrir Team Garmin SA og Jennie Stenerhag frá Svíþjóð.
Meirihluti keppenda sem skráðir eru til leiks eru karlar en meðal keppenda er Ingvar Ómarsson, ein skærasta stjarnan meðal íslenskra fjallahjólagarpa. Ingvar hjólar ásamt Christian Helmig frá Lúxemborg og þá eru skráðir til leiks þeir Gregory Saw og Thomas Engelsgjerd sem þykja sterkir í greininni. „Þeir ætla sér klárlega stóra hluti í keppninni, við ætlum að fylgjast vel með þeim,“ segir Björk. Þá eru stór nöfn frá Noregi skráð til leiks en Team Trek Mesterhus teflir til að mynda fram tveimur liðum.
Leiðin hefur verið hjóluð áður en talsvert umstang er að ferja vistir og búnað á svæðið svo ekki er hlaupið að því að hjóla leiðina án þess að vera vel undirbúinn. Björk kveðst nokkuð bjartsýn á að veðrið setji ekki strik í reikninginn en veðurspá gerir ráð fyrir talsverðri rigningu næstu daga. Vonast hún til að suðlægar áttir geri það að verkum að ekki verið jafnkalt og ef skyldi snúa í norðanátt.
Keppnin stendur yfir frá 17. til 19. ágúst og lýkur með heljarinnar veisluhöldum í Viðey 20. ágúst. „Flestir skrá sig með því markmiði að ljúka keppni, hafa gaman af, njóta náttúrunnar og þess sem Ísland hefur upp á að bjóða,“ segir í tilkynningu frá Made in Mountains.