Vill skýra stefnu og pólitíska samstöðu

Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Eva Björk

Birgir Jakobsson landlæknir segir nauðsynlegt að setja mjög skýra stefnu í heilbrigðismálum hér á landi, þannig að ekki verði hægt að reisa hér einkasjúkrahús og hótel líkt og það sem hollenska félagið Burbanks Capital, með fjárfestinn Henri Middeldorp í fararbroddi, hefur óskað eftir að reisa í Mosfellsbæ. 

Félagið hefur frestað verkefninu þangað til það kemst í samband við ráðamenn þjóðarinnar og fær tillögur frá stjórnvöldum um breytingar á áformum þeirra. 

Frétt mbl.is: Áformum um einkasjúkrahús frestað

Í síðustu viku var sagt frá því að íslenskir fjárfestar sem tóku þátt í verkefninu hafi dregið sig úr því vegna ósættis við Middeldorp varðandi birtingu upplýsinga um hvaða fjárfestar væru á bak við verkefnið. Áttu íslensku fjárfestarnir 2% í verkefninu.

Frétt mbl.is: Íslendingar draga sig úr spítalaverkefni

Vonast eftir breiðri pólitískri samstöðu

„Stefnan hefur verið svolítið óskýr fram að þessu en velferðarráðuneytið hefur á sínu borði drög að heilbrigðisstefnu sem ég held að verið lögð fyrir Alþingi. Ég held að það sé mjög mikilvægt, til þess einmitt að geta tekið afstöðu til svona mála, að hafa skýra stefnu,“ segir Birgir Jakobsson.

Hann vonast eftir breiðri pólitískri samstöðu um það hvernig Íslendingar vilji að heilbrigðiskerfið þróist. „Þá er ég ekki hræddur um að ekki sé hægt að fást við svona frumkvæði. Skýr heilbrigðisstefna leysir ekki öll vandamál en mér finnst hún þurfa að vera þannig að þar sé hvergi minnst á svona sjúkrahús.“

Henri Middeldorp (t.h.) ásamt hjarta­lækn­in­um Pedro Brugada.
Henri Middeldorp (t.h.) ásamt hjarta­lækn­in­um Pedro Brugada.

Gæti þurft lagabreytingu 

Landlæknir hefur átt fundi með velferðarnefnd Alþingis og velferðarráðuneytinu að undanförnu vegna áforma um byggingu sjúkrahússins í Mosfellsbæ. Ráðuneytið er að vinna að úttekt á lagaumhverfi einkasjúkrahúsa. Eins og lagaramminn er í dag segir Birgir að litlar líkur séu á því að Embætti landlæknis gæti synjað erlendu fjárfestunum um leyfi til að að reisa sjúkrahúsið eingöngu á þeim forsendum að það myndi valda röskunum í heilbrigðiskerfinu. „Það er hlutur sem ég held að velferðarráðuneytið og við líka verðum að líta á og við erum að því. Það þarf lagabreytingu eða reglugerðarbreytingu til, að öllum líkindum.“

Frétt mbl.is: Innihaldslaus umræða um einkasjúkrahús

Frétt mbl.is: Ræðir við landlækni um sjúkrahús

Landlæknir er hann sótti fund velferðarnefndar Alþingis í síðustu viku.
Landlæknir er hann sótti fund velferðarnefndar Alþingis í síðustu viku. mbl.is/Golli

Óheillavænlegt skref

Miklar áhyggjur hafa verið uppi um að einkasjúkrahús í Mosfellsbæ myndi skapa tvöfalt heilbrigðiskerfi hér á landi og grafa undan núverandi heilbrigðiskerfi. Birgir segir komu slíks sjúkrahúss ekki vera það sem íslenskt heilbrigðiskerfi þarf á að halda í dag. „Íslenskt heilbrigðiskerfi hefur við mörg brýn vandamál að stríða og það er nauðsynlegt að við einbeitum okkur að því að bæta þau vandamál,“ greinir hann frá.

„Ég er búinn að segja það margsinnis að það þarf að styrkja heilsugæsluna um allt land og það þarf að styrkja sérfræðiþjónustuna úti á landi. Það þarf að styrkja Landspítalann sem háskólasjúkrahús allra landsmanna. Þetta eru þessi þrjú aðalverkefni sem þarf að einbeita sér að og ég tel að svona stórt verkefni utan við heilbrigðiskerfi okkar muni bara dreifa huganum og skapa vandamál, þannig að mér líst ekki á þetta verkefni,“ segir Birgir.

„Ég held að þarna sé verið að taka óheillavænlegt skref og held að við eigum að einbeita okkur að því að skapa mjög gott heilbrigðiskerfi. Við höfum til þess alla burði og kunnáttu. Ef við höfum nægilega gott heilbrigðiskerfi í landinu má vel vera að útlendingar vilji koma hingað og fá meðferð en þá gera þeir það innan ramma okkar heilbrigðiskerfis.“

Styrkja þarf Landspítalann sem háskólasjúkrahús allra landsmanna, að mati landlæknis.
Styrkja þarf Landspítalann sem háskólasjúkrahús allra landsmanna, að mati landlæknis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áhætta að taka við svona gestum

Birgir hitti spænska hjartalækninn Pedro Brugada, sem er í samstarfi við erlendu fjárfestana um rekstur sjúkrahússins í Mosfellsbæ, í vor þar sem Brugada og sendinefnd hans kynntu hugmyndir um að hefja samstarf við klíníkina í Ármúlanum. Áður hafði Brugada rætt við heilbrigðisráðherra um sama mál. „Við kynntum fyrir þeim hlutverk Embættis landlæknis í þessu ferli og það var aldrei minnst á svona einkasjúkrahús einu orði á þeim fundi. Ég sé núna að það er ákveðin áhætta að taka við svona gestum þegar þeir nota slíkan fund sér í hag en við sýndum þeim fulla kurteisi og ræddum við þá. En þessar hugmyndir voru alls ekki nefndar á þeim fundi,“ segir hann og bætir við að það hafi komið sér algjörlega á óvart þegar hann heyrði um áform Brugada og hollensku fjárfestanna í Mosfellsbæ.

Frétt mbl.is: Heyrði fyrst af áformunum í fréttum

Síðan fréttir tóku að berast af áformunum kveðst Birgir ekkert hafa heyrt í Brugada og félögum. „Og ég hafði aldrei heyrt getið um Brugada áður heldur, þannig að ég veit ekkert um hann. En ef þetta heldur áfram verða þeir að tilkynna fyrirhugaðan rekstur hingað til embættisins. Þá verðum við að taka afstöðu til þess.“

Myndi valda mikilli röskun

Inntur eftir því hvort einkasjúkrahús myndi draga til sín íslenskt heilbrigðisstarfsfólk segir Birgir að auðvitað myndi skapast samkeppni um starfsfólk. Það séu þó ekki góð rök á móti byggingu sjúkrahússins vegna þess að opinbera kerfið verði að bjóða starfsfólki sínu þannig starfsskilyrði að það vilji vinna þar. Einnig nefnir hann að vaxandi samkeppni sé frá nágrannalöndum okkar um starfsfólk og því sé orðið mun minna mál en áður fyrir Íslendinga að fara til útlanda og starfa, jafnvel í tíma og ótíma. Einkareknar heilsugæslustöðvar og önnur heilbrigðisþjónusta sé líka valmöguleiki hér á landi fyrir starfsfólk. „Við erum nú þegar í mikilli samkeppni en augljóslega mun svona stór starfsemi valda mikilli röskun í mönnun heilbrigðiskerfisins,“ segir Birgir.

Spænski hjartalæknirinn Pedro Brugada.
Spænski hjartalæknirinn Pedro Brugada. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hálfgerðar skýjaborgir

Í grein sem þrír hjartalæknar við Landspítalann skrifuðu vegna sjúkrahússins í Mosfellsbæ sögðu þeir óöryggi fólgið í því að reisa hér einkasjúkrahús og byggja afkomu þess á erlendum heilsuferðamönnum.

Frétt mbl.is: Ræddi við fyrrverandi forstjóra Landspítalans

„Ég tala kannski ekki núna sem landlæknir en ég held að Íslendingar verði að athuga sinn gang gaumgæfilega áður en þeir taka fjárfesta inn í landið sem fjárfesta í svona stórum verkefnum, sem eru að mínu mati hálfgerðar skýjaborgir. Ef allt fer um koll, hver tekur þá ábyrgðina? Þá er oft hætta á því að skattborgarar þessa lands sitji uppi með tékkann.“

Sérðu eitthvað jákvætt við komu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ? „Alls ekki. Spurðu mig þessarar spurningar þegar ég tel að íslenskt heilbrigðiskerfi sé fyllilega samkeppnishæft og í fremstu röð. Þá er ég reiðubúinn að ræða önnur mál en ég held að það séu nokkur ár þangað til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka